Erfitt að manna framboðslista á Héraði

Egilsstaðir eru stærsti þéttbýliskjarninn á Fljótsdalshéraði. Mynd úr safni.
Egilsstaðir eru stærsti þéttbýliskjarninn á Fljótsdalshéraði. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Tveir listar sem eru í meirihluta bæjarstjórnar á Fljótsdalshéraði hafa átt í vandræðum með að endurnýja framboðslista sína fyrir kosningarnar í vor. Á-listi áhugafólks um sveitarstjórnarmál hefur ákveðið að bjóða ekki fram, en þetta kom frá á vef Austurfréttar í gær.

Austurfrétt hefur eftir Gunnari Jónssyni, formanni bæjarráðs, sem leitt hefur Á-listann í síðustu tveimur bæjarstjórnarkosningum, að „gamli kjarninn“ sé orðinn þreyttur og fólk hafi ekki fundist til að taka við.

Héraðslistinn, samtök félagshyggjufólks á Fljótsdalshéraði, mun á aðalfundi sínum á laugardag ákveða hvort listinn bjóði fram eða ekki, en þar hefur einnig verið erfitt að fá fólk til að taka efstu sæti listans.

Bæjarstjórnarsætin virðast ekki kalla á menn

Sigrún Blöndal, fráfarandi oddviti listans, segist í samtali við mbl.is vonast til þess að fólk fáist í lykilsæti listans.

„Við gefum ekki alveg strax upp vonina,“ segir Sigrún, en hún telur að störf bæjarfulltrúa höfði ekki til fólks vegna þess að þeim fylgi töluvert mikil vinna fyrir lítil laun. Því sjái ekki allir sér fært að sinna þessu samfélagslega hlutverki.

Bæjarfulltrúar á Fljótsdalshéraði fá 95.000 kr. á mánuði ef þeir mæta á báða fundi bæjarstjórnar og svo fá fulltrúar í bæjarráði einnig 95.000 kr., ef þeir mæta á fjóra fundi bæjarráðs. Þá fá oddvitar listanna fimm þúsund króna símastyrk frá bænum á mánuði.

„Svo er afskaplega margt utan þess, sem menn verða bara að gera í sínum vinnutíma eða sumarfríum. Þetta kallar ekki á menn, virðist vera,“ segir Sigrún.

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eiga einnig fulltrúa í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs, og sem sakir standa er mögulegt að flokkarnir tveir verði þeir einu sem ætla að bjóða fram í sveitarfélaginu í vor.

Tíðindamenn mbl.is á Fljótsdalshéraði segja þó að þar sé Miðflokkurinn að undirbúa framboð, auk þess sem ekki er endanlega búið að taka ákvörðun hjá Héraðslistanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert