Framtíðaruppbygging inn á við

Hamraborgin er falleg. Í það minnsta úr lofti
Hamraborgin er falleg. Í það minnsta úr lofti mbl.is/Kristinn Magnússon

Fá nýbyggingarsvæði standa Kópavogi til boða og því nauðsynlegt að fyrirhuguð uppbygging fari fram með þéttingu byggðar innan núverandi bæjarmarka. Þetta segir Birgir H. Sigurðsson, skipulagsstjóri Kópavogs.

Íbúum Kópavogsbæjar hefur fjölgað ört undanfarin ár. Fyrir tuttugu árum voru íbúar tæplega 20.000 en eru nú 36.000. Frá árinu 1990 hefur fjöldi nýrra hverfa bæst við bæinn, Smárinn, Lindir, Salir, Kórarnir, Hvörfin og Þingin. Birgir segir framtíðarskipulag bæjarins hins vegar gera ráð fyrir því að horft verði inn á við, líkt og í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þannig muni 75% þeirrar uppbyggingar sem verður til ársins 2024 fara fram innan núverandi íbúðabyggðar.

Gert er ráð fyrir að íbúar Kópavogs verði um 40 þúsund í lok árs 2024 þegar núverandi aðalskipulag bæjarins fellur úr gildi en Birgir segist vera vanur að nota þá tölu sem neðri mörk íbúafjöldans. Hann hafi áður brennt sig á því að íbúaaukning fari fram úr spám bæjarins.

Nýtt miðhverfi í vinnslu

Meðal þeirra reita sem eru í uppbyggingu er Auðbrekka, iðnaðargata í miðju íbúðarhverfi milli Álfhólsvegar og Nýbýlavegar. Þar er hafin vinna við uppbyggingu íbúða, sem að endingu verða 160, en fasteignafélagið Lundur er eigandi svæðisins. Á Glaðheimasvæðinu sem afmarkast af Reykjanesbraut til vesturs og Bæjarlind til norðurs, er gert ráð fyrir 530 íbúðum. Þar eru framkvæmdir langt komnar og fyrstu íbúar farnir að flytja inn. Þá munu 550 íbúðir rísa á Kársnesi, auk þess sem Wow Air hyggst flytja höfuðstöðvar sínar þangað og byggja þar hótel. Skipulagsvinnu á þessum þremur reitum er þó ekki lokið og þar eru þéttingartækifæri til frambúðar, að sögn bæjarstarfsmanna. Þá er einnig áformað að 160 íbúðir rísi sunnan Smáralindar. Það svæði hefur verið nefnt 201 Smári en gert er ráð fyrir þéttri byggð með verslunarrými á jarðhæð þar sem þjónusta verði í göngufæri.

Í Auðbrekku eru framkvæmdir komnar á fullt.
Í Auðbrekku eru framkvæmdir komnar á fullt. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við getum kallað þetta nýtt miðhverfi,“ segir Birgir, en vill forðast að kalla þetta nýjan miðbæ Kópavogs. „Um það eru skiptar skoðanir,“ segir hann og rifjar upp deilur sem upphófust þegar til stóð að færa bæjarskrifstofurnar úr Hamraborginni í Norðurturn Smáralindarinnar.

Ekki byggt austan Heiðmerkur

Það er þó ekki svo að Kópavogsbær eigi ekki landsvæði. Um 80 ferkílómetra land austan Heiðmerkur tilheyrir bænum. Það landsvæði er ekki samtengt restinni af bænum heldur skilur Heiðmörkin, sem er í eigu Reykjavíkur, svæðin að. Svæðið stækkaði raunar um 30 ferkílómetra í fyrra þegar Héraðsdómur úrskurðaði að svæði frá Heiðmörk að Bláfjöllum tilheyrði Kópavogsbæ en ekki Reykjavík.

Aðspurður segir Birgir engin áform vera um nýtingu þess svæðis og að hann sjái ekki fyrir sér að þar verði nokkurn tíma byggt. „Við höfum ásamt hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu sammælst um ákveðin ytri mörk byggðar á svæðinu og hún gerir ekki ráð fyrir að byggð fari út fyrir Heiðmörk.“ Byggðin megi ekki þenjast um of, auk þess sem mikilvægt er að hafa í huga að vatnsból höfuðborgarbúa eru í Heiðmörk og varasamt að byggja og nálægt því.

Kópavogur í ljósaskiptunum. Fyrir aftan Smáralindina verður nýtt hverfi, 201 …
Kópavogur í ljósaskiptunum. Fyrir aftan Smáralindina verður nýtt hverfi, 201 Smári, byggt upp. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert