Stærsta áskorunin að flytja að heiman

Arnór og Álfheiður deila áhyggjum af því að hagkvæmt húsnæði ...
Arnór og Álfheiður deila áhyggjum af því að hagkvæmt húsnæði vanti fyrir ungt fólk. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bættar almenningssamgöngur og áhyggjur af húsnæðismarkaðnum eru þau mál sem helst brenna á ungum kjósendum í Reykjavík, sem blaðamaður tók tali í Háskólanum.
„Það er bara mjög fínt að vera ungur í Reykjavík,“ segir Arnór Jóhannsson, 21 árs háskólanemi úr Laugardalnum. Stutt sé í alla þjónustu og Háskólann auk þess sem borginni takist að hafa nokkurs konar stórborgarblæ yfir sér án þess þó að
vera jafnyfirþyrmandi og alvöru stórborgir. „Reykjavík kemst upp með að
hafa svo lítið, en vera samt alveg nógu góð,“ segir Arnór sposkur.

Arnór Jóhannsson
Arnór Jóhannsson mbl.is/Valli

Arnór býr í foreldrahúsum og sér ekki fram á að flytja út í náinni framtíð. Hann hefur áhyggjur af húsnæðismarkaðnum og því að hagkvæmt húsnæði sé af skornum skammti. Hann er ekki sá eini. Í sama streng tekur Álfheiður Edda Sigurðardóttir, sem einnig er í Háskólanum.

„Það er svo sem fínt að búa hjá mömmu og pabba meðan maður hefur ekki efni á að flytja út,“ segir Álfheiður. Hún viðurkennir þó að það gæti hugsanlega verið einfaldara að koma undir sig fótunum ef hún færi betur með peninga.

Samgöngumál eru ofarlega í hugum beggja fyrir kosningarnar. „Ég er hrifinn af öllum sem vilja auka tíðni strætóleiða,“ segir Álfheiður. „Kerfið er allt í lagi, en vagninn mætti koma oftar.“ Undir það tekur Arnór. Bæta þurfi umferðina í borginni, laga vegina og tryggja að strætó gangi tíðar.

Álfheiður Edda Sigurðardóttir
Álfheiður Edda Sigurðardóttir mbl.is/ValliEn hvernig bætir maður umferðina?
„Það er einmitt góð spurning, og örugglega mjög erfitt,“ segir Arnór.
„Ég ætla ekki að þykjast vita eitthvað sem ég veit í raun mjög lítið um.

En ég þykist vita, eða vona í það minnsta, að hún gæti verið betri.“ Hann segist opinn fyrir Borgarlínu. Það sé kostur sem þurfi að skoða. „Ég held að við þurfum að spyrja okkur hvort hún muni gera lífið auðveldara í Reykjavík.“

Mínimalisminn heillar


Álfheiður og Arnór segjast bæði ætla að kjósa. Álfheiður hefur kynnt sér stefnuskrá flestra flokka fyrir kosningarnar og segist nokkurn veginn vera búin að taka ákvörðun, þó
hún sé ekki alveg niðurnjörvuð.

„Ég stefni að því að kjósa flokk með minimalíska stefnu. Helst eyða sem minnstu í óþarfa og gera eitthvað gott við peningana,“ segir hún. Sveitarfélög hafi tilhneigingu til að eyða
peningum í óþörf verkefni sem gagnist fáum.

Tíðari strætóferðir væru kjarabót fyrir margan háskólanemann.
Tíðari strætóferðir væru kjarabót fyrir margan háskólanemann. mbl.is/Hari

„Þess vegna gæti ég til dæmis ekki hugsað mér að kjósa
Vinstri græn. Mér finnst þau boða alltof mikil svoleiðis útgjöld.“ Arnór hefur einnig gert upp hug sinn og segir samgöngu- og húsnæðismál vera þau mál sem hann hafi helst litið til við ákvörðunina enda eigi það að vera helsta viðfangsefni sveitarstjórna.

Minni áhugi á borg en þingi

Arnór og Álfheiður eru sammála um að áhugi á borgarstjórnarkosningunum sé mun minni en á þingkosningunum í fyrra. „Í kringum mig finnst mér eins og flestir hafi þegar gert upp hug sinn, en þeir sem hafi ekki gert það ætli bara ekki að kjósa,“ segir Arnór.

Álfheiður segir hugsanlegt að áhugaleysið stafi af því að hagsmunamál ungs fólks séu frekar á könnu alþingis en borgarinnar og nefnir sem dæmi fjármögnun háskólanna og
námslánakerfið. Leik- og grunnskólar og útsvarsprósenta séu mögulega ekki helstu hugðarefni ungu kynslóðarinnar.

mbl.is