Sama samstarf og áður í skoðun

mbl.is

„Mér finnst eðlilegast í ljósi útkomu kosninganna að skoðað verði hvort þeir geti unnið saman áfram áður en aðrir möguleikar verða kannaðir,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri, í samtali við mbl.is. Vísar hann þar til samstarfs Samfylkingarinnar, L-listans og Framsóknarflokksins.

Framboðin þrjú fengu samanlagt sex bæjarfulltrúa af ellefu í sveitarstjórnarkosningunum í gær, eða tvo hver, sem er sama staða og var á síðasta kjörtímabili. „Samstarfið á síðasta kjörtímabili gekk mjög vel og við skilum af okkur góðu búi og náðum vel saman. Hins vegar er nýtt fólk í brúnni hjá hinum framboðunum þannig að við þurfum að kynnast og ræða saman og kanna hvort ekki sé örugglega flötur á því að halda áfram.“

Framboðin þrjú eru þegar farin að hittast og ræða málin að sögn Guðmundar. Spurður hvað hann sjái fyrir sér ef viðræðurnar beri ekki árangur segir hann: „Við skulum fyrst skoða þennan möguleika. Ég held að það sé eðlilegast að gera það fyrst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert