Spennulosun og gleði í Snæfellsbæ

Fagnað í Snæfellsbæ. Frá vinstri; Örvar Marteinsson, Björn Haraldur Hilmarsson, …
Fagnað í Snæfellsbæ. Frá vinstri; Örvar Marteinsson, Björn Haraldur Hilmarsson, Auður Kjartansdóttir, Júníana Björg Óttarsdóttir, Kristinn Jónasson bæjarstjóri og Andri Benediktsson. Morgunblaðið/Alfons Finnsson

Gleðin var við völd hjá frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í Snæfellsbæ eftir að fyrir lá að listi flokksins hefði fengið um 60% atkvæða. Oddviti listans, Björn Haraldur Hilmarsson, útibússtjóri í Snæfellsbæ, segir að þetta sé næstbesta kosning flokksins í bænum.

„Við unnum góðan sigur, fengum tæp 60% á móti J-listanum sem var sameiginlegt framboð þriggja lista sem sameinuðust núna í eftir síðustu kosningar,“ segir Björn.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið með meirihluta í bænum í 20 ár og Björn segir að aðeins einu sinni áður hafi flokkurinn fengið hærra hlutfall atkvæða þarna, það var árið 2004 þegar það var 63%.

Eftir að niðurstöður lágu fyrir var ákaft fagnað, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. „Það er svo gott veður hérna, við vildum viðra okkur eftir kosningabaráttuna og fagna góðum sigri.“ segir Björn, en hópurinn fór í gönguferð um bæinn og endaði niður við höfn í Ólafsvík þar sem myndin var tekin. 

„Það er bara ákveðin spennulosun í gangi, ofboðsleg ánægja og samstaða. Við vildum viðra okkur eftir kosningabaráttuna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert