Viðreisn gæti krýnt borgarstjóra

mbl.is

Viðreisn gæti verið í lykilstöðu við myndun nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Þetta segir Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.  Eva Marín Hlynsdóttir lektor í stjórnmálafræði við HÍ segir að það sé mikilvægt fyrir viðgang nýrra framboða á borð við Miðflokkinn og Viðreisn að ná inn sveitarstjórnarfulltrúum sem víðast.

„Eins og staðan er núna er þetta sterk kosning fyrir Sjálfstæðisflokkinn en Samfylkingin virðist ekki vera að ná því upp úr kjörkössunum sem útlit var fyrir,“ sagði Eiríkur eftir að fyrstu tölur höfðu borist úr Reykjavík. Þá höfðu 9.235 atkvæði verið talin, en 90.135 eru á kjörskrá og var kjörsókn 59,1%. „Þetta er ennþá æsispennandi og algerlega óútkljáð hvort það verði stjórnarbreytingar í Reykjavík eða ekki,“ segir Eiríkur.

Dr. Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst
Dr. Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst Haraldur Jónasson / Hari

Hann segir Viðreisn vera í algerri lykilstöðu því að flokkurinn geti leikið á hvorn vænginn sem er. „Það gæti farið svo að Viðreisn myndi krýna nýjan borgarstjóra,“ segir Eiríkur.

Skýrar fylkingar

Spurður um hvaða möguleikar séu fyrir hendi við að mynda nýja meirihluta, hvort sem hann væri með aðild Samfylkingar eða Sjálfstæðisflokks segir Eiríkur nokkuð skýrar fylkingar vera fyrir hendi. „Báðir flokkar þurfa Viðreisn, ef niðurstaðan verður eins og fyrstu tölurnar. Ég held að það sé nokkuð ljóst að Sósíalistaflokkur Íslands er ekki að fara að starfa með Sjálfstæðisflokki. En Sjálfstæðisflokkur gæti t.d. myndað meirihluta með Viðreisn, Flokki fólksins og Miðflokknum.“

Gott gengi Viðreisnar og Miðflokks

Þegar litið er yfir landið allt segir Eiríkur einna athygliverðast hversu góða útkomu Viðreisn og Miðflokkurinn virðist ætla að fá, en hvorugur flokkurinn hefur boðið fram áður í sveitarstjórnarkosningum.  Eva Marín Hlynsdóttir lektor í stjórnmálafræði við HÍ tekur undir þetta og segir að þetta sé afar mikilvægt fyrir flokkana til að skapa sér stöðu á landsvísu. „Að vera með sýnileika innan sveitarfélagana og gera sig gildandi þar skiptir miklu máli fyrir næstu alþingiskosningar. Að búa til traustan grunn víða um land - þetta er stundum kallað fótgönguliðar.“

Eva Marín Hlynsdóttir lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Eva Marín Hlynsdóttir lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Eva Marín segir að fyrstu tölurnar frá Reykjavík, um að meirihlutinn sé fallinn, sé í samræmi við þær kannanir sem birtust í gær. „En þetta  getur allt breyst, það er heilmikið eftir í kössunum og við vitum ekkert hvað er á þeim kjörseðlum.“

Helmingur framboða með fulltrúa eftir fyrstu tölur

Að mati Evu Marínar er einna athygliverðast þegar litið er yfir landið allt að ríkisstjórnarflokkarnir virðist vera að tapa fylgi. „T.d. Sjálfstæðisflokkurinn - hann er ekkert endilega að tapa í sínum meirihlutum, en er samt að missa eitthvað fylgi í gömlum vígum sínum eins og t.d. Seltjarnarnesi. “

Af þeim 16 framboðum sem buðu fram í Reykjavík mælast átta með borgarfulltrúa eftir þessar fyrstu tölur. „Það er augljóslega eitthvað af atkvæðum sem verða ekki til þess að fulltrúar verði kjörnir,“ segir Eva Marín. En það er ekki þar sem sagt að þau falli dauð, eins og stundum er sagt.  Fólk er auðvitað að lýsa yfir tiltekinni afstöðu með því að greiða ákveðnum hópi atkvæði sitt. Það er ómögulegt að segja hverjum þetta fólk hefði greitt atkvæði sitt ef þessi framboð hefðu ekki verið í boði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert