Á hvað veit sprungið framdekk á reiðhjóli?

Gylfi Sigurðsson á hjóli og í bakgrunni sést Alfreð Finnbogason.
Gylfi Sigurðsson á hjóli og í bakgrunni sést Alfreð Finnbogason. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Íslenska landsliðið í knattspyrnu æfði ekki í gær heldur gátu leikmenn ráðstafað tíma sínum sjálfir. Sumir notuðu tækifærið og skoðuðu mannlífið í Kabardinka, litla strandbænum við Svartahaf sem er bækistöð liðsins meðan á HM stendur, í hefðbundinni rjómablíðu.

Morgunblaðið hitti Gylfa Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Alfreð Finnbogason, Jón Daða Böðvarsson, Rúrik Gíslason og Sverri Inga Ingason í miðbænum þar sem þeir gengu um í fylgd öryggisvarða. Það mun regla á HM að ef fleiri en fimm fara saman af hótelinu eru öryggisverðir með í för.

Vegfarendur áttuðu sig sumir á því hverjir voru þarna á ferð og fengu að taka sjálfu með íslensku strákunum.

Framdekkið var sprungið á hjóli Rúriks Gíslasonar þegar strákarnir komu …
Framdekkið var sprungið á hjóli Rúriks Gíslasonar þegar strákarnir komu úr göngutúrnum. Hann fékk nýtt frá öryggisvörðunum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Leikmennirnir hjóluðu frá hóteli sínu, meðfram ströndinni og að miðbænum, þar sem skoðuðu sig um góða stund á tveimur jafnfljótum áður en sest var á fákana aftur og hjólað til baka.

Ekki gátu allir farið á sama farartæki eftir göngutúrinn því framdekkið á hjóli Rúriks var loftlaust.

Það hefur verið skorið á dekkið, sagði Rúrik undrandi. Félagar hans höfðu gaman af og hlógu dátt!

Öryggisvörður brást skjótt við og færði Rúrik annað hjól. Ekkert vesen á þeim bænum.

Upp í hugann kom enn og aftur setningin góða: Fall er fararheill. Í ljós kemur á laugardag hvort þetta er til marks um að Rúrik verði í byrjunarliðinu gegn Argentínu! Ekkert fæst upp gefið um hvað þjálfararnir eru að hugsa og fjölmiðlamenn fá aðeins að fylgjast með fyrsta stundarfjórðungi hverrar æfingar. Þá hita leikmenn upp og ekki er sýnt á nein spil.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert