Skipaðir til að verja kvótakerfið

Gunnar Smári Egilsson, sósíalistaforingi í Dagmálum.
Gunnar Smári Egilsson, sósíalistaforingi í Dagmálum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Smári Egilsson er ekki að skafa utan af hlutunum í formannaviðtali í Dagmálum Morgunblaðsins, sem birt er í opnu streymi í dag.

Hann segir að Ísland sé gerspillt samfélag og að dómskerfið og stjórnsýslan séu valdaklíka, en að baki búi skipulegt samsæri um að setja inn menn í Hæstarétt til þess að verja kvótakerfið. Hann kveðst ekki vita hverjir stýri því samsæri. 

„Flokkurinn var stofnaður fyrir síðustu þingkosningar, en við ákváðum að fara ekki fram þá, heldur að snúa okkur að endurreisn verkalýðshreyfingarinnar. Af því að við erum sósíalistaflokkur þá teljum við það ekkert síður og jafnvel mikilvægari vettvang heldur en hinn borgaralega lýðræðisvettvang eins og sveitarstjórnir og þing.“

En nú tók fylgið undir sig stökk.

„Ég var spurður að þessu í vetur, hvert fylgið væri að fara, og ég sagði að þegar við birtum listana myndi fylgið tvöfaldast og síðan mun það tvöfaldast eftir það.“

Þessum orðum fer Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, um stöðu flokksins nú þegar nokkrir dagar eru liðnir af kosningabaráttunni. Hann er gestur í hressilegu samtali á vettvangi Dagmála.

Gunnar Smári Egilsson er gestur Stefáns Einars Stefánssonar og Andrésar …
Gunnar Smári Egilsson er gestur Stefáns Einars Stefánssonar og Andrésar Magnússonar í forystuviðtali Dagmála. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórnin mun falla

Kannanir benda til mjög dreifðs fylgis og stjórnarmeirihlutinn virðist ætla að halda áfram fái hann umboð til þess...

„Nei, hann fellur. Alveg sannfærður um það. Þessi ríkisstjórn hefur ekki innistæðu til þess að halda áfram.“

Nú varstu sjálfur hallur undir frjálshyggju á árum áður, stór-kapítalisti árin fyrir hrun, gekkst næst í múslimafélagið, vildir ganga Noregskonungi á hönd og nú Sósíalistaflokkinn. Finnst þér skrýtið þó sumir spyrji hvort þér sé alvara eða hvort þetta sé bara langdreginn gerningur?

„Þarf maður ekki að eiga kapítal til þess að vera kapítalisti? Ég átti ekki kapítal.“

Starfsmaður en ekki kapítalisti

Áttirðu ekki valrétt á því?

„Það er ekki að vera kapítalisti, það er að vera starfsmaður.“

En er þér alvara?

„Það er munur á því að stofna stjórnmálaflokk og hinu. Þegar þú ert að vísa til meintrar nýfrjálshyggju minnar í kringum 1990, þá var ég að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn, sem þóttist vera mikið fyrir frelsi og svona, en þá getur verið klókara að gagnrýna hann frá hægri en vinstri.“

Eru þetta þá bara klókindi?

„Nei, það er munur á að vera í stjórnmálabaráttu og að vera fríliði úti í hinni almennu umræðu.“

En þú hafnar því að hafa verið kapítalisti þegar þú varst að vinna með mönnum sem höfðu tugmilljarða umsvif, þú varst að kaupa stórfyrirtæki hér heima og erlendis, ferðaðist í einkaþotum, á forstjóralaunum og forstjórajeppum. Snýrð svo við blaðinu og talar um að það þurfi að brjóta niður stórfyrirtæki vegna þess að fólk hafi það ekki nógu gott í samfélaginu.

„Ég lifi í kapítalísku samfélagi og þarf að vinna innan þess. Ég er blaðamaður og var lengst af á jaðrinum, en komst að því að það er ekki til langlífis. Þegar kom að því að bjarga Fréttablaðinu frá þroti, þá rifjaðist upp saga Morgunblaðsins, svo ég leitaði til kaupmanna í Reykjavík. Af því að ég vissi að við áttum ólíka en sameiginlega hagsmuni.“

Þú varst þá aldrei kapítalisti, þú bara notfærðir þér kapítalista?

„Allt þetta tal um Baugspenna, eins og Baugur hafi verið stjórnmálaafl, er hlægilegt. Það að hafa verið Baugspenni var að skrifa innan þeirrar ritstjórnarstefnu sem ég og fleiri mótuðum, sem var ögrandi fyrir Morgunblaðið og Kolkrabbann. Þeir sem svöruðu mér þá voru Sjálfstæðisflokkurinn og stórkapítalið á Íslandi.“

En hérna rétt áðan sagðir þú að stórfyrirtæki mættu ekki gína yfir samfélaginu, nema þegar þú ert þar – er það trúverðugt?

„Ég trúði því – og ég skal játa að það voru mistök – að ritstjórnum væri vörn í því að vera almenningshlutafélag. Það var kannski barnaskapur hjá mér.“

Á vettvangi Dagmála.
Á vettvangi Dagmála. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tjáningarfrelsi en ekki kapítal

En fjölmiðlasumarið 2004 skrifaðir þú fjölda leiðara um að ekkert mætti trufla eignarhald stórfyrirtækja á fjölmiðlum...

„Það snerist um tjáningarfrelsið.“

Nei, það snerist um eignarhaldið.

„Það mega allir gefa út það sem þeir vilja, þó það raski hagsmunum Morgunblaðsins og Kolkrabbans. Þið eruð hér í vinnu fyrir fjölmiðil í eigu auðhringa.“

Þú talar um Kolkrabbann eins og hann sé í fullu fjöri, notar orð eins auðhringi, stéttarbaráttu, samvinnuhreyfinguna og svo framvegis. Viltu færa samfélagið aftur til 1971, skrúfa litinn niður í sjónvarpinu eða hvert er þetta að fara?

„Það samfélag, sem ég ólst upp í, var byggt upp af öflugum almannahreyfingum, verkalýðshreyfingunni, samvinnuhreyfingunni og fleiri með virkri stjórnmálaþátttöku almennings. Þetta hafði alls konar áhrif í samfélaginu, sem var valddreifðara og fjölbreyttara...“

Eru ekki að lýsa einhverri útópíu sem aldrei var?

„Ég er bara að segja að á þessum árum var virk stjórnmálaþátttaka almennings áberandi. Núna lifum við í samfélagi þar sem eru flokkar sem eru tómar skeljar á gríðarlegum ríkisstyrkjum. Það gerir forystuna óháða grasrótinni, sem er stórhættulegt.“

Lygari verði látinn þrífa klósett

En nú ert þú að gefa kost á þér til Alþingis og það er ekki óeðlilegt að fólk spyrji um ábyrgð þína þegar þú tekur stórt upp í þig. Þú leggur til að sjálfstæðishúsinu Valhöll verði breytt í almenningssalerni og að tiltekinn maður eigi að skúra þar...

„Maður sem hefur borið út alls konar lygar um mig.“

Og þú hefur líka haft í heitingum við Hæstarétt ef hann fer ekki eftir ykkar kröfum.

„Nei, það er ekki alveg þannig.“

Sagðirðu ekki að það ætti að ryðja Hæstarétt ef hann dæmdi öðruvísi en ykkur þætti réttast?

„Ja, við lifum við það vandamál að tiltekinn flokkur hefur haft völd í gegnum dómsmálaráðuneytið og raunverulega ráðið dómara á öllum dómstigum meira og minna áratugum saman.

Við gerðum könnun um daginn sem sýndi að 66% töldu að spilling væri vandamál í íslenskum stjórnmálum. Þjóðfélög sem lenda í að gömul valdaklíka hefur dreift sér út um allt samfélagið, er í stjórnsýslunni, í dómskerfinu og út um allt...“

Ertu að segja að stjórnsýslan á Íslandi og dómskerfið sé valdaklíka?

„Já.“

Lausn í nýjum lýðveldum

Það er mjög alvarlegt mál ef maður sem er að fá fljúgandi fylgi í könnunum og koma mörgum þingmönnum inn, sé með það að stefnu að ryðja Hæstarétt og að því er virðist stjórnkerfið, af því að sá hópur er skilgreindur sem valdaklíka. Þetta eru rosaleg orð.

„Það hefur gerst í sögunni, þar sem fólk hefur misst samfélag sitt í svona, að þá hefur verið gripið til þess ráðs að búa eitthvað til eins og 2. lýðveldið. Við erum gerspillt samfélag.“

Telurðu að dómsvaldið sé spillt?

„Ég tel að það hafi skipulega verið settir inn menn í Hæstarétt, sem eru líklegir til þess að verja meint eignarhald stórútgerðarinnar. Að það sé skipulagt samsæri.

Og ef það er þannig, að Hæstiréttur stoppar það að almenningur fái að nota sínar auðlindir, þá verðum við að bregðast við því. Ég er að benda á að aðrar þjóðir hafi brugðist við því að stofna nýtt lýðveldi.“

Bíddu við, þú segir að það sé skipulegt samsæri hvernig Hæstiréttur hafi verið skipaður til þess verja eitt tiltekið mál.

Bakherbergi einhvers staðar

„Auðvitað, það vita það allir.“

Hver stýrir þessu samsæri?

„Það veit ég ekki. Það er eitthvert bakherbergi einhvers staðar. Þið ættuð að vita það.“

Enga dellu hér, hver stýrir slíku samsæri?

„Hverjir hafa völdin á Íslandi?

Þú hefur þá einhverja innsýn sem við höfum ekki.

„Inn í Sjálfstæðisflokkinn? Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fæð á mig í 30 ár.“

Ertu að segja að flokkur með 25% fylgi hafi hér öll völd? Og að hin 75% geti ekki rönd við reist?

„Það er sorgin í íslenskum stjórnmálum.“

Af hverju, er það glundroðinn á vinstri kantinum?

„Ég veit það ekki, vald er náttúrlega sterkt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »