Katrín segir ekki sjálfgefið að hún leiði

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, á von á allt að níu flokkum á þingi eftir komandi kosningar. Ljóst sé að ríkisstjórnarmyndun mun reynast erfið og ekki sjálfgefið að hún leiði þá vinnu.

„Hún getur orðið fjögurra, fimm, sex flokka. Ég meina, það er þannig sem ég horfi á það. Og þá skiptir auðvitað máli að allir stjórnmálaflokkarnir nálgist það verkefni þannig að þeir vilji vera lausnamiðaðir og það þýðir að allir munu þurfa að gefa eitthvað eftir af sínum málum,“ segir Katrín.

Hún var gestur í Dagmálum þar sem forsvarsmenn stjórnmálaflokka ræddu stöðuna fyrir komandi þingkosningar. Fóru umræðurnar fram í höfuðstöðvum Morgunblaðsins við Hádegismóa í Reykjavík.

Allir verði að gefa eitthvað eftir

Katrín segir ljóst að stjórnmálaflokkar verði að gefa kjósendum raunhæfar væntingar. Ljóst sé að allir flokkar verði að gefa eitthvað eftir eigi að vera hægt að mynda starfhæfa og sterka ríkisstjórn að loknum kosningum.

Þá var bent á að sumir stjórnmálaflokkar hafi gengið svo langt að útiloka samstarf með öðrum flokkum að loknum kosningum. Slíkt hljóti að flækja stöðuna enn frekar. Spurð hvernig hún myndi fara að því að mynda ríkisstjórn við þessar aðstæður svarar Katrín:

„Það er í fyrsta lagi ekkert sjálfgefið að ég myndi næstu ríkisstjórn. En ég er hins vegar algerlega tilbúin í það. Þá segi ég líka að við þurfum að gefa fólkinu í landinu þá raunhæfu mynd að þá munu allir flokkar að sjálfsögðu þurfa að fara yfir sín mál og gefa eftir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert