Kappræðuþáttur 1: Margt ber í milli þrátt fyrir allt

Það gustaði um stjórnmálaleiðtogana rétt eins og gróðurinn í Hádegismóum …
Það gustaði um stjórnmálaleiðtogana rétt eins og gróðurinn í Hádegismóum í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það var allnokkur spenna í loftinu þegar fyrri hópur stjórnmálaleiðtoganna af tveimur mætti til kappræðna í Hádegismóum í gær. Á sama tíma og kannanir sýna að fylgi flokkanna er tekið að hreyfast nokkuð þarf formaður Sjálfstæðisflokksins að snúa dalandi stöðu við, en formenn Framsóknar, Viðreisnar og Samfylkingar leita leiða til þess að ýta enn frekar undir fylgisþróun síðustu tveggja vikna.

Sósíalistaflokkurinn er sá flokkur sem stolið hefur senunni og nefnir Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar flokksins, það raunar að flokkurinn sé „einu tíðindin í íslenskum stjórnmálum“. Kannanir bendi til þess að hann taki til sín helming alls þess fylgis sem komist hefur á hreyfingu í aðdraganda þessara kosninga.

Kappræðurnar: 

Skaut fast á Framsókn

Flokkana greinir einnig á um hver þeirra eigi tilkall til forystunnar á miðju stjórnmálanna. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar sagði Framsóknarflokkinn ekki rísa undir því og beindi orðum sínum m.a. að embættisfærslu Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. Sagði hún að „enginn miðjuflokkur færi í mál við konu sem leitaði réttar síns í jafnréttismáli“.

Tók Sigurður Ingi formaður Framsóknarflokksins fálega í þessa sendingu Þorgerðar Katrínar og sagði það ekki aðferðafræði flokks síns að ráðast gegn öðrum flokkum í baráttunni.

Bjarni Benediktsson var spurður hvort ekki væri einboðið að annar tæki við forystukeflinu í Sjálfstæðisflokknum ef niðurstaða kosninganna yrði sú að flokkurinn fengi 20% eða minna. Sagði Bjarni það ekki liggja í augum uppi. Flokkurinn þyrfti hins vegar mögulega að fara í naflaskoðun og að við slíkar aðstæður gæti það reynst heilladrýgst að standa utan ríkisstjórnar.

Þorgerður Katrín og Bjarni.
Þorgerður Katrín og Bjarni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skattamál í brennidepli

Sló í brýnu milli leiðtoganna þegar skattamál voru í brennidepli. Varði Logi Einarsson hugmyndir Samfylkingarinnar um upptöku stóreignaskatts og sagði stefnuna að „taka þessa peninga, tíu milljarða til dæmis í þessu tilviki, og fjárfesta í barnafjölskyldum í landinu. Taka upp norrænt barnabótakerfi [...] þar sem t.d. hjón með meðaltekjur og tvö börn fengju 54 þúsund krónur á mánuði“.

Gagnrýndi Bjarni tillögur Loga og sagði m.a. að mjög væri á reiki hvað flokkurinn teldi sig geta fengið út úr skattinum. Fyrst hefði verið talað um 15 milljarða en nú væri upphæðin sögð 10 til 14 milljarðar.

Gunnar Smári sagði engu líkara en Framsóknarflokkurinn hefði tekið upp tillögur Sósíalistaflokksins um þrepaskiptan tekjuskatt þar sem „minni fyrirtæki verði skattlögð minna. Stærð verði skattlögð. Vegna þess að störfin og nýsköpunin verður til í minni fyrirtækjunum“. Sagði hann einnig mikilvægt að hverfa frá stefnu sem fæli í sér að skattleggja fátækt.

Sigurður Ingi og Gunnar Smári.
Sigurður Ingi og Gunnar Smári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heimskulegast af öllu

Bjarni gagnrýndi þessa nálgun Gunnars Smára og benti á að kaupmáttur láglaunafólks hefði aukist meira en annarra hópa og að ríkissjóður tæki ekki skatt af hinum verr settu. Þar væri um skattheimtu af hálfu sveitarfélaganna að ræða. Sagði hann auk þess að það væri „það heimskulegasta sem Íslendingar gætu gert“ að skattleggja stærri fyrirtæki umfram hin minni. Það myndi fæla mikilvæg og stór fyrirtæki úr landi sem sinntu nýsköpun í miklum mæli.

Þorgerður Katrín hefur ítrekað að Viðreisn boði vinstri velferð og hægri hagstjórn og að flokkurinn telji „auknar skattahækkanir ekki vera stóra svarið við því m.a. að brúa mjög götóttan ríkissjóð. Nú er verið að spá miðað við fjármálaáætlun um 35-50 milljarða gati og við teljum ekki skattahækkanir vera réttu leiðina. Enda höfum við lagt fram okkar tillögur um það hvernig við ætlum að auka hagvöxt, hvernig við ætlum að spara í vaxtatekjum ríkisins og síðan hvernig við ætlum síðan að láta markaðsleiðina í sjávarútvegi afla aukinna tekna fyrir ríkissjóð“.

Logi Einarsson.
Logi Einarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Segir herferð í gangi

Logi Einarsson var sérstaklega spurður út í fréttir Viðskiptablaðsins um nærri 100 milljóna hagnað Kristrúnar Frostadóttur af nýtingu kauprétta á vettvangi Kviku banka. Er ljóst að Logi er allt annað en sáttur við að fjárhagsmálefni hennar skuli dregin inn í kosningabaráttuna og segist ekki þekkja til þeirra upphæða sem þar hafi verið í spilinu. Ítrekaði hann þó að Kristrún hefði og myndi svara spurningum fjölmiðla um þetta mál. Sagði hann hins vegar að stjórnmálaflokkur og „tengd blöð“ reyndu að grafa undan innkomu hennar á svið stjórnmálanna.

mbl.is