Sátt með svörin og vonast til að kjósa aftur í dag

Hann segir það ekki síður tilgang þeirra hjóna að vekja …
Hann segir það ekki síður tilgang þeirra hjóna að vekja athygli á málinu til að hjálpa öðrum. mbl.is/Arnþór

Magnús Karl Magnús­son, eiginmaður Ellýjar Katrínar Guðmundsdóttur sem meinað var um aðstoð inni í kjörklefa við að kjósa, fékk símtal frá sýslumanni höfuðborgarsvæðisins þess efnis að Ellý mætti fara og kjósa aftur, í það sinn með aðstoð Magnúsar.

„Svör sýslumanns og formanns landskjörstjórnar eru alveg afdráttarlaus að Ellý á rétt á þessari aðstoð, þannig að við erum alveg mjög ánægð með þá niðurstöðu,“ segir Magnús. 

„Við höfum heyrt mörg dæmi um það að aðrir sjúklingar með alzeimer hafi lent í svipuðu og að starfsmenn kjörstjórnar hafi talið að þessi sjúkdómur leiddi ekki til þess að þeir ættu rétt á aðstoð.“

Kveðið á um sjónleysi eða að hönd sé ónothæf

Ellý, sem er lög­fræðing­ur og fyrr­ver­andi borg­ar­rit­ari og sviðsstjóri Reykja­vík­ur­borg­ar, greind­ist með Alzheimer-sjúk­dóm­inn fyr­ir nokkr­um árum. Hjón­in fóru á kjörstað utan kjör­fund­ar til að kjósa og upplýstu starfs­mann á kjörstaðnum um stöðu Ellýjar og fóru fram á að Magnús myndi fylgja henni inn í klefa sem aðstoðarmaður, þar sem hún ætti erfitt með að rita sjálf á seðil­inn vegna sjúk­dóms­ins.

Þeim brá hins veg­ar í brún þegar kosn­inga­stjóri neitaði þeim að fara sam­an inn í kjör­klefa þar sem hann taldi ástand Ellýj­ar ekki falla und­ir þau skil­yrði sem ein­stak­ling­ar þurfa að upp­fylla sam­kvæmt lög­um til að fá aðstoð inn í klefa. Þar sé ein­ung­is kveðið á um sjón­leysi eða að hönd sé ónot­hæf.

Vekja athygli á málinu til að hjálpa öðrum

Magnús segir að að hjónin ætli að fara aftur að kjósa og vonist til þess að fá betri viðtökur en síðast. „Við ætlum að fara aftur vonumst til þess að fá betri viðtökur og að þessi réttur hennar verði viðurkenndur, við vitum að það verður.“

Magnús segist hafa sent póst á formenn yfirkjörstjórna vegna kosninganna á laugardag, þar sem hann segist vonast til þess að þeir muni brýna fyrir starfsfólki þessa túlkun landskjörstjórnar að þetta ákvæði eigi við um alla þá sem eiga erfitt með að skrifa á kjörseðil.

Hann segir það ekki síður tilgang þeirra hjóna að vekja athygli á málinu til að hjálpa öðrum.

„Við hjónin erum mjög sátt núna að þetta sé niðurstaðan og að réttur Ellýjar sé afdráttarlaus í lögunum. Við erum sátt og sæl núna og vonumst til þess að fara og kjósa aftur seinnipartinn í dag.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert