Stjórnarmyndun mjakast áfram

Flokksformennirnir Sigurður Ingi Jóhannsson, Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir.
Flokksformennirnir Sigurður Ingi Jóhannsson, Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Arnþór Birkisson

Viðræður formanna stjórnarflokkanna, þeirra Bjarna Benediktssonar, Katrínar Jakobsdóttur og Sigurðar Inga Jóhannssonar, héldu áfram í Ráðherrabústaðnum í gær líkt og fyrr í vikunni, en sem áður halda leiðtogarnir málum mjög þétt að sér og þaðan hefur lítið frést.

Þingmenn stjórnarflokkanna, sem Morgunblaðið ræddi við, segja að málið sé alfarið í höndum formannanna, enn sem komið er, þótt búist sé við því að þeir kalli fleiri að borðinu í komandi viku, þegar og ef rammi endurnýjaðs ríkisstjórnarsamstarfs liggi fyrir. Gert hafði verið ráð fyrir því að boðað yrði til þingflokksfunda fyrr í vikunni, en af því kann að verða í dag eða jafnvel um helgina.

„Erfiðu málin“ tefja fyrir

Þingmennirnir lögðu allir áherslu á að flokkarnir hefðu nægan tíma og vildu gefa sér þann tíma sem þyrfti til þess að leysa úr ágreiningsefnum. Nefnt var að flokksformennirnir vildu einmitt leysa „erfiðu málin“ frá fyrra kjörtímabili áður en tekið væri til að semja nýjan stjórnarsáttmála, sem viðbúið er að taki talsverðan tíma og fleiri komi að. Þar vilja menn búa tryggilega um alla hnúta, svo sem fæst úrlausnarefni geti valdið usla síðar.

Þessi erfiðu mál hafa hins vegar reynst tafsamari en vonir stóðu til. Þar mun hálendisþjóðgarður og orkunýting vera helstu ásteytingarsteinar, en segja má að þar ræði um sitt hvora hlið á sama peningi.

Ýmis fleiri mál voru nefnd til sögunnar, en almennt virðast þingmennirnir bjartsýnir á að formennirnir leysi þau. Hins vegar séu viðræður formannanna orðnar nokkru lengri en til stóð og líklegt að þeir taki sér hlé um helgina og heyri í sínu fólki. Eða sú virtist a.m.k. von þingmanna, sem sumir eru greinilega forvitnir um hvernig gangi.

Ítarlegri umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert