Ríkisstjórnin illa undirbúin

Þingflokksformönnum stjórnarandstöðuflokka kemur á óvart hvað ríkisstjórnarflokkarnir koma illa undirbúnir til þings, ekki síst í ljósi þess langa tíma sem tekinn var til stjórnarmyndunar. Það eigi bæði við fjárlögin sem skiptingu ráðuneyta og verkefni þeirra.

Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingar, og Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, eru viðmælendur dagsins í Dagmálum, streymi Morgunblaðsins á netinu, sem opið er öllum áskrifendum. Þáttinn í heild má nálgast með því að smella hér.

„Þetta er allt einhvernveginn ótrúlega kauðskt. Fjárlögin eru kynnt og þau eru öll á fullu við að verja fjárlögin, en þetta eru samt bara drög,“ segir Helga Vala.

„Ráðuneytin eru ekki tilbúin. Ráðherrarnir vita ekki hvað þeir heita eða hvað ráðuneytin heita. Vita ekki við hvaða málaflokka þau eru að starfa, hvað þá starfsfókið,“  segir hún og bætir við að innan úr stjórnarráðinu heyrist að það séu um 200 starfsmenn af 700, sem eiga einhverskonar flutning í starfi yfir höfði sér.

Hanna Katrín tekur í sama streng. „Það kemur mér einlæglega á óvart hversu illa formenn þessara þriggja flokka nýttu það skjól, sem þau urðu sér úti um vegna kosningahneykslisins í Norðvesturkjördæmi. Þetta eru tveir heilir mánuðir.“

mbl.is