Fyrirtæki og fjölskyldur fara annað

Umræða um fjármál Reykjavíkurborgar er nauðsynleg, þótt hún geti verið flókin, segir Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi. Flestir eru sammála um að í borginni eigi að vera framúrskarandi skólar, góðir leikskólar, öflug velferðarþjónusta, greiðar samgöngur og svo framvegis, en ekkert af því muni ganga vel ef fjárhagurinn er ekki traustur. Hún segir að það sé hann ekki í Reykjavíkurborg og þess vegna virki margt í borginni ekki.

Hildur hefur gefið kost á sér til þess að leiða lista sjálfstæðismanna í komandi borgarstjórnarkosningum og er í viðtali við Dagmál, streymi á netinu, sem opið er öllum áskrifendum. Þáttinn allan má horfa á með því að smella hér.

„Mér finnst Reykjavík ekki virka,“ segir Hildur. „Við getum nefnt samgöngurnar, þær virka ekki. Þær eru ekki að ganga fyrir fólkið í borginni, fólk situr fast í umferð allt of lengi og líka þeir sem velja almenningssamgöngur, þær ganga oft ekki nægilega vel fyrir fólk.“

Hún nefnir einnig leikskólavandann í borginni, grunnskólarnir virki ekki vel, húsnæðismarkaðurinn virki ekki vel, borgarkerfið virki ekki og þar fram eftir götum.

„Fyrir ótrúlega marga er Reykjavík ekki að virka. Þess vegna erum við að sjá fyrirtæki og fjölskyldur fara annað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina