Frír strætó ekki að veruleika

Meirihlutinn felldi í dag tillögu um að hafa gjaldfrjálst í …
Meirihlutinn felldi í dag tillögu um að hafa gjaldfrjálst í Strætó í eitt ár. mbl.is/Hari

Frítt aðgengi að almenningssamgöngum mun ekki standa borgarbúum til boða á næstunni en tillaga um gjaldfrjálsan Strætó í eitt ár hlaut ekki samþykki á fundi borgarstjórnar í dag.

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins lagði fram tillöguna en hún var felld með 12 atkvæðum meirihlutans gegn 11 atkvæðum minnihlutans.

Vigdís var vitaskuld svekkt með útkomuna enda hefði tilraunaverkefnið að hennar sögn verið kjörið tækifæri til að komast til botns í því hvernig borgarbúar vilja ferðast og hver hámarks raunnotkun yrði í almenningssamgöngum ef þjónustan yrði ókeypis í eitt ár.

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins.
Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins. mbl.is/​Hari

Mesta óráð og feigðarflan

Hlutfall fjölda farþega í strætó hefur staðið í stað frá árinu 2012, eða í um 4% af öllum umferðarmátum, þrátt fyrir fjárframlög ríkisins til fyrirtækisins sem áttu að auka ferðatíðni fólks með strætisvögnunum, segir Vigdís.

„Þeim finnst þetta mesta óráð og feigðarflan að fara af stað með þetta tilraunaverkefni því að þau líta svo á að það sé allt í himnalagi með rekstur strætó og þetta væri of dýrt,“ segir Vigdís í samtali við mbl.is um viðbrögð meirihlutans.

Verkefnið segi til um velgengni borgarlínu

Hún er þó sannfærð um að höfuðástæða þess að tilraunarverkefnið hafi verið fellt sé vegna þess að meirihlutanum sé ljóst að fjöldi farþega komi ekki til með að aukast þó að frítt verði í strætó.

Að sögn Vigdísar er samræmi milli þess hvort almenningur sé tilbúinn að nota strætó og hvort hann muni nýta sér þjónustu borgarlínu þegar hún verður loks að veruleika. Eru báðir ferðamátarnir almenningssamgöngur sem snúast um hvort fólk sé tilbúið að sleppa tökum á fjölskyldubílnum.

„Þessi tillaga hefði verið kjörið tækifæri til að finna það út í eitt skipti fyrir öll: Erum við almenningssamgangna borgarbúar eða ekki. Hefði aukningin verið milli 15 til 20 prósent þá hefði verið réttlætanlegt að fara að skoða það að huga að borgarlínu, en ekki fyrr.“

Borgarlína úrelt hugsun

Þá segir hún almenningssamgöngur einnig vera í mikilli samkeppni við aðra ferðamáta sem tengjast heilbrigðum lífstíl, á borð við að ganga eða hjóla, enda sé búið að ráðast í stórátak í uppbyggingu hjóla- og göngustíga víða á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta er líka komið á svo mikið undanhald og það er ekki tekið tillit til þess neins staðar.“

Í þessu samhengi telur hún það úrelta hugsun að halda borgarlínu til streitu.

mbl.is