Sínum augum lítur hver flokkur silfrið

Lísbet Sigurðardóttir, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, Ragna Sigurðardóttir, forseti Ungra …
Lísbet Sigurðardóttir, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, Ragna Sigurðardóttir, forseti Ungra jafnaðarmanna, og Unnur Þöll Benediktsdóttir, formaður Sambands ungra framsóknarmanna. Ljósmynd/mbl.is

Ungt fólk var áberandi í framlínu stjórnmálaflokkanna í kosningabaráttunni sem nú er yfirstaðin. Þar skiptu ungliðahreyfingar flokkanna sköpum við að virkja sitt fólk í kosningastarfinu.

Í Dagmálum í dag er rætt við þrjár forystukonur á vettvangi ungliðahreyfinganna. Það eru þær Unnur Þöll Benediktsdóttir, formaður Sambands ungra framsóknarmanna, Ragna Sigurðardóttir, forseti Ungra jafnaðarmanna, og Lísbet Sigurðardóttir, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Það var svo kannski til marks um að ný kynslóð bankar nú á dyrnar hjá flokkunum að með Lísbet í för var Ólöf, fimm mánaða dóttir hennar sem lét til sín taka í umræðunum fyrstu mínúturnar sem þátturinn lifði.

Unnur Þöll er nýr varaborgarfulltrúi Framsóknar og var raunar kosningastjóri flokksins í Reykjavík fyrir þessar kosningar. Hún segir flokkinn með sterkt umboð og að fulltrúar hans treysti Einari Þorsteinssyni vel til að leiða meirihlutaviðræður til lykta. Hún telur Einar vel að því kominn að setjast í stól borgarstjóra og gefur lítið fyrir vangaveltur þáttastjórnenda um að reynsluleysi hans og annarra nýrra kjörinna fulltrúa Framsóknar geti reynst þeim mótdrægt.

Ragna telur hins vegar að Samfylkingin eigi enn erindi í meirihluta í borginni og að ekki sé ástæða til að gera of mikið úr þeirri staðreynd að öðru sinni í röð fellur meirihluti undir stjórn Dags B. Eggertssonar. Bendir hún á að meirihlutar hafi oftast fallið í kosningum frá aldamótum.

Hún telur áherslur flokksins ríma að mörgu leyti vel við það sem finna megi í áherslum annarra flokka til vinstri og út á miðjuna. Mestu skipti að mynda meirihluta í kringum málefnalegan samstarfsgrundvöll en ekki einstaka embætti eins og borgarstjórastólinn.

Hildur geri tilkall til stólsins

Lísbet leggur áherslu á að niðurstöður kosninganna vitni um ákall um breytingar. Því væri óviturlegt af Framsóknarflokknum, sem keyrði á þeirri áherslu í kosningunum að gerast hækja undir hinn fallna meirihluta. Hún telur að Hildur Björnsdóttir geti greiðlega gert tilkall til borgarstjórastólsins, enda flokkurinn stærstur í borgarstjórn að afloknum kosningum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert