Hafa rætt embætti bæjarstjóra

Valdimar Víðisson er oddviti Framsóknar í Hafnarfirði.
Valdimar Víðisson er oddviti Framsóknar í Hafnarfirði.

Bæjarstjórastóllinn í Hafnarfirði hefur verið ræddur í formlegum viðræðum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks „eins og allt annað“, að sögn oddvita Framsóknarflokksins. Hann segir viðræður ganga ágætlega.

„Við erum á fundi í þessum töluðu orðum og það er ágætis gangur í samtalinu,“ segir Valdimar Víðisson, oddviti Framsóknarflokksins í Hafnarfirði.

„Bæjarstjórastóllinn er eitt af því sem er til umræðu eins og allt annað. Málefnin eru það sem við erum fyrst og fremst að vinna að.“

Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, er núverandi bæjarstjóri. 

Tíðinda af viðræðunum er að vænta fljótlega eftir helgi. 

Þannig að þetta gengur bara vel og þið eruð ekkert farin að bítast um bæjarstjórastólinn?

„Hann hefur verið nefndur og ræddur í samtölum en við erum að ræða þetta allt saman í einni heild,“ segir Valdimar.

Gerið þið þá ekki sérstaka kröfu um bæjarstjórastólinn?

„Í raun og veru erum við bara að ræða málefnin og við höfum rætt stólana. Við ætlum að reyna að komast að lendingu með þetta allt saman.“

mbl.is