Hafi rætt við Sjálfstæðisflokk á bak við Framsókn

Frá vinstri: Valgarður Lyngdal Jónsson sem leiðir lista Samfylkingar, Ragnar …
Frá vinstri: Valgarður Lyngdal Jónsson sem leiðir lista Samfylkingar, Ragnar Baldvin Sæmundsson sem fer fyrir Fram- sókn og Líf Lárusdóttir oddviti Sjálfstæðisflokks. Myndin var tekin fyrir kosningar. mbl.is/Brynjólfur Löve

Samfylkingin á Akranesi sleit viðræðum við Framsóknarflokkinn í gær og segir oddviti Framsóknar að Samfylkingin hafi vanvirt heiðursmannasamkomulag um að flokkarnir ætluðu ekki að ræða við aðra degi eftir að samkomulagið hafði verið handsalað. Þá hafi Samfylkingin strax ráðist í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn. 

Viðbrögð Samfylkingar: 

Formlegar viðræður voru hafnar á milli Samfylkingar og Framsóknar strax á mánudag en flokkarnir tveir mynda meirihluta á því kjörtímabili sem nú er að líða undir lok. 

„Það hefur síðan komið í ljós að á sama tíma og þeir voru í viðræðum við okkur og höfðu handsalað heiðursmannasamkomulag um það væru þeir í viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn á sama tíma,“ segir Ragnar Baldvin Sæmundsson, oddviti Framsóknar á Akranesi. 

Sýni ákveðið innræti

Allir flokkarnir þrír fengu þrjá fulltrúa inn í bæjarstjórn í kosningunum en Framsókn bætti við sig fulltrúa frá kosningunum árið 2018. Sjálfstæðisflokkurinn missti aftur á móti einn fulltrúa en fékk mest fylgi og Samfylkingin stóð í stað á milli kosninga.

Þið eruð væntanlega nokkuð ósátt með að heiðursmannasamkomulagið hafi verið vanvirt?

„Já, eðlilega þá sýnir það ákveðið innræti,“ segir Ragnar. 

Aðspurður segir hann að Samfylkingin hafi ekki gefið upp ástæðu fyrir viðræðuslitunum.

„Við vorum að ræða skiptingu ráða og nefnda. Við höfum verið í meirihlutasamstarfi og okkar tillaga var í raun sú að spegla þá skiptingu sem hefur verið á þessu kjörtímabili þar sem hefur hallað á okkur. Að við sætum í raun við sama borð og þau hafa setið á þessu kjörtímabili,“ segir Ragnar. 

Hafi ekki tekið ekki nema einn dag að vanvirða samkomulagið

Hvort sú krafa Framsóknar hafi orðið til þess að Samfylkingin ákvað að ganga til viðræðna við Sjálfstæðisflokkinn er þó ekki gott að segja, að sögn Ragnars. 

„Þegar er búið að slíta þá týnast til spilin og þá kemur í ljós að það eru búnar að vera viðræður. Við handsölum heiðursmannasamkomulag á mánudegi um að við séum ekki í viðræðum við aðra flokka en fyrsti fundur á milli þeirra [Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks] fer fram daginn eftir, á þriðjudegi.“

Ætlið þið líka að reyna að ræða við Sjálfstæðisflokkinn? 

„Ég hef bara átt óformlegt spjall við oddvita Sjálfstæðisflokksins, ekkert meira en það. Þetta kom bara upp í gær og þá voru viðræður [Samfylkingar] hafnar við Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Ragnar. 

„Við fórum inn í þessar viðræður með heiðarleika og trausti og ætlum að reka okkar pólitík þannig. Svo sjáum við bara hvað gerist.“

Á síðustu áratugum hefur oftast verið ráðinn bæjarstjóri á Akranesi svo frá Ragnars sjónarhóli snerust viðræður þeirra ekki um þann stól. Hann segir Framsókn ánægða með störf núverandi bæjarstjóra, Sævars Freys Þráinssonar.

mbl.is