Tómas Arnar Þorláksson
Dagur B. Eggertsson var kjörinn borgarstjóri Reykjavíkur á fyrsta fundi nýkjörinnar borgarstjórnar sem hófst klukkan 14:00 í dag. Var hann kjörinn með fjórtán atkvæðum en níu skiluðu auðu í kosningunni.
Tók þá Dagur til pontu þar sem að hann sagði nokkur orð eftir kjör hans sem borgarstjóri var staðfest. Byrjaði hann að þakka öllum innilega fyrir traustið áður en hann að grínaðist létt með fjölda auðra atkvæða.
„Ágæta borgarstjórn ég vil þakka það traust sem mér hefur verið sýnt af mikilli auðmýkt, ég þakka stuðninginn. Ég hélt þarna um tíma að Auður væri að hafa þetta,“ sagði Dagur og vísaði til þess að í upptalningu atkvæða las Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, upp níu auða seðla í röð.
Hægt er að fylgjast með beinu streymi af fundinum hér fyrir neðan.