VG og Samfylking samþykkja stjórnlagaþing

Jóhanna Sigurðardóttir, tilvonandi forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, væntanlegur fjármálaráðherra, …
Jóhanna Sigurðardóttir, tilvonandi forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, væntanlegur fjármálaráðherra, ræddu við blaðamenn að loknum fundi sínum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir, tilvonandi forsætisráðherra, sagði að loknum fundi forystumanna VG og Samfylkingar í dag að náðst hefði samkomulag um að efna til stjórnlagaþings en Framsóknarflokkurinn setur það sem skilyrði fyrir að verja ríkisstjórnina falli. Hins vegar hefur ekki náðst samkomulag um hvernig það verður útfært eða hvenær yrði kosið.

Framsóknarmenn hafa þegar útbúið lagafrumvarp um stjórnlagaþing og leggja til að kosning að það verði samþykkt á þessu þingi og svo aftur eftir kosningar, enda um breytingu á stjórnarskrá að ræða sem þarf tvö þing til að samþykkja. Kosning til stjórnlagaþings gæti svo farið fram í haust.

Enn er stefnt að því að ný ríkisstjórn taki við völdum á laugardag en Samfylking hefur boðað flokksstjórnarfund á morgun sem þarf að samþykkja málefnasamning nýju ríkisstjórnarinnar sem og ráðherraskipan. Framsókn ætlar líka að kalla sitt fólk saman og ætla má að það verði sömuleiðis gert á morgun.

Enn hefur ekki náðst samkomulag um hvenær verði efnt til Alþingiskosninga en ætla má að sú dagsetning verði gerð ljós á morgun. Aðspurð um hvernig færi með eftirlaunalögin sagði Jóhanna Sigurðardóttir að það kæmi í ljós en að það væri jákvæðni gagnvart því að ráðast í breytingar á þeim.  

Jóhanna og Steingrímur upplýstu ekkert frekar um ráðherraskipan eða atriði í málefnasamningnum þegar þau ræddu við blaðamenn í Alþingishúsinu í dag. Steingrímur sagði þó að þetta yrði tímamótaríkisstjórn hvað jafnréttismál varðar en gera má ráð fyrir jafnri kynjaskiptingu í ráðherrastólum, sem yrði þá í fyrsta sinn.

Steingrímur og Jóhanna hyggjast funda með formanni Framsóknarflokksins núna og starf í málefnahópum heldur áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina