Karitas átti ekki von á sigri

FÓLKIÐ  | 6. febrúar | 20:40 
„Ég er enn að átta mig á þessu, ég var einhvern veginn aldrei á þeim stað í hausnum að ég væri að fara að taka þetta og eins klisjulega eins og það hljómar þá er þetta „life changing“ fyrir mig,“ segir Karitas Harpa sem vann The Voice Ísland síðastliðinn föstudag.

Karitas Harpa Davíðsdóttir stóð uppi sem sigurvegari í sjónvarpsþáttunum The Voice Ísland, sem hafa verið til sýninga í Sjónvarpi Símans í vetur. Eftir þáttinn skálaði hún með öðrum þátttakendum og aðstandendum þáttanna og brunaði síðan beint í heimabæinn, Selfoss. „Það var smá móttaka á Kaffi Selfoss, þættirnir hafa verið sýndir þar. Ég söng eitt eða tvö lög en var ekki lengi, ég var dauðþreytt eftir daginn. Það var magnað að finna allan stuðninginn og samstöðuna, miklu meira en ég hefði getað vonað. Mjög skemmtilegt og mér þykir svo vænt um það.“

Salka enn til staðar

Karitas var enn að ná sér niður á jörðina og átta sig á þessu þegar mbl.is náði í hana í dag, og var fyrst og fremst þakklát fyrir allan stuðninginn og hamingjuóskirnar. Næstu skref í tónlist hafa ekki verið ráðin en það er ljóst að samstarf Karitasar og Sölku Sólar, þjálfara hennar í þáttunum, heldur áfram en þær eru orðnar góðar vinkonur. Þær eru þegar farnar að ræða hugmyndir um hvernig má nýta hljóðverstímana sem voru meðal verðlauna í þáttunum.

„Ég er ekki búin að velja mér einhverja stefnu, mig langar að prófa sem mest og vinna með sem flestum. Ég held áfram að taka að mér hitt og þetta og vinna í tónlist. Þetta er stökkpallur og maður verður að lemja járnið á meðan það er heitt.“

 

Fyrsta lagið sem Karitas söng í þáttunum var One and Only með Adele

Markmiðið að syngja eins mörg lög og hægt var

Hugsunin um sigur hvarflaði lítið að Karitas í aðdraganda þáttarins og í raun ekki fyrr en hún stóð uppi á sviði þegar úrslitin voru kynnt. Helsta stressið snerist um að hún var búin að vera að æfa tvö lög en það var ekki víst að hún fengi að flytja þau bæði. Þátturinn hófst nefnilega á fjögurra liða úrslitum. Fjórir söngvarar stigu á svið, tveir voru valdir áfram í símakosningu og tveggja manna úrslitin fóru fram í beinu framhaldi.

„Keppnisskapið hjá mér snerist aðallega um að komast upp úr fjögurra manna í tveggja manna úrslit. Ég hugsaði bara ekki út í að ég hefði möguleika á að vinna, ég vildi bara sýna sem flestar hliðar á mér sem listamanni. Þegar því markmiði var náð var ég sátt, ég fékk að syngja eins mörg lög og ég mögulega gat í þessu ferli.“

Eitt þekkt og eitt óþekkt lag

Karitas söng lagið With A Little Help from my Friends með Bítlunum. Fyrst stóð til að hún myndi syngja annað lag en þær Salka ákváðu að skipta. „Ég tengdi svo mikið við þetta lag, ég veit að þetta hljómar klisjukennt en ég hefði aldrei getað farið í gegnum þetta án fjölskyldu minnar og vina.“ Stuðningurinn var greinilegur þegar úrslitin voru tilkynnt en fjölskylda Karitasar og vinir hennar þustu upp á svið til að óska henni til hamingju og hún endurtók lagið í lok þáttarins umkringd sínu fólki.

 

My Love með Sia er eitt af minnst þekktu lögum sem sungin hafa verið í keppninni.

Flest þeirra laga sem Karitas hefur flutt í þáttunum hafa verið mjög fjörug, en lagið sem hún söng í tveggja manna úrslitunum var hins vegar draumkennt og tilfinningaþrungið. Það var lagið My Love með Sia, úr kvikmyndinni The Twilight Saga: Eclipse. Þar var Karitas ekki að fara út úr þægindarammanum eins og kann að virðast, heldur aftur inn í hann. „Ég hef mikið verið að syngja ballöður, kannski ekki alveg svona en mér finnst gaman að segja sögur með tónlist. Ekki endilega að eltast við hæstu tónana heldur að ná tilfinningunni, svo það var meira út fyrir þægindarammann að taka hressu lögin. Ég fór inn í þessa keppni með því hugarfari að spreyta mig sem listamaður. Ég fór ekki bara til að sýna mig heldur til að læra af ferlinu og þroskast svo ég fengi eitthvað út úr þessu, svo ég sagði já við sem flestu.“

Enn að átta sig á áhrifum sigursins á lífið

„Ég er enn að átta mig á þessu, ég var einhvern veginn aldrei á þeim stað í hausnum að ég væri að fara að taka þetta og eins klisjulega og það hljómar þá er þetta life changing fyrir mig. Ekki bara titillinn, sem er stökkpallur, heldur líka verðlaunin. Að fá bíl, geta sleppt mínum og afborgunum af honum, geta borgað niður yfirdrátt […] ég bjóst ekki við þessu og ég er að átta mig á þessu, hvaða áhrif þetta hefur á líf mitt og Ómars [sonur Karitasar].“

 

 

Þættir