Beita valslöngvum og eldörvum gegn lögreglu

ERLENT  | 14. nóvember | 12:01 
Bensínsprengjur og eldörvar sem varpað er úr heimasmíðuðum valslöngvum eru meðal vopna sem mótmælendur í Hong Kong hafa gripið til í aðgerðum sínum gegn lögreglu.

Bensínsprengjur og eldörvar sem varpað er úr heimasmíðuðum valslöngvum eru meðal vopna sem mótmælendur í Hong Kong hafa gripið til í aðgerðum sínum gegn lögreglu. 

Stanslaus mótmæli hafa verið í borginni síðustu fjóra daga. Mótmælin hófust fyrir sex mánuðum og til að byrja með var mótmælt á hverjum laugardegi, en mótmælin hafa stigmagnast síðustu vikur. Mót­mæl­end­ur krefjast auk­ins lýðræðis fyr­ir Hong Kong. Carrie Lam, leiðtogi heima­stjórn­ar Hong Kong, sagði á blaðamanna­fundi eft­ir mót­mælin á mánudag að að mót­mæl­end­ur væru óvin­ir fólks­ins.

Frétt mbl.is

Stjórnvöld í Hong Kong greindu frá því í dag að skólar og aðrar menntastofnanir verði lokaðar fram yfir helgi og heilbrigðisþjónusta af skornum skammti. 

Mótmælendur hafa sett upp vegatálma víða í borginni, einkum í fjármálahverfinu, og hefta aðgengi að neðanjarðarlestum. Fólk á því erfitt með komast til og frá skóla eða vinnu. 

 

Háskólar í borginni hafa sumir hverjir orðið að miðdepli mótmælenda sem segjast vera að verja sig gegn lögreglu. Valslöngvu hefur verið komið fyrir á skólalóð tækniháskóla í borginni og dýnur hafa verið teknar úr stúdentaíbúðum og notaðar sem skjól gegn gúmmíkúlum lögreglu. Um þúsund mótmælendur, margir hverjir nemendur, söfnuðust saman við skólann í dag. 

„Ef lögreglan kemur munum við hlaða valslöngvuna með múrsteinum, bensínsprengjum og eldörvum,“ segir 23 ára mótmælandi í samtali við AFP-fréttastofuna.

 

Þættir