Verja einkaleyfin með nýsköpun

VIÐSKIPTI  | 13. desember | 10:47 
Forstjóri Kerecis að öflug nýsköpun geti tryggt forystu fyrirtækisins á sviði sáraroðaframleiðslu, jafnvel þótt fleiri fyrirtæki muni með tíð og tíma sjá tækifæri í því að framleiða vöru af svipuðu tagi.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis segir fyrirtækinu ekki standa ógn af því þótt einkaleyfi af vörum fyrirtækisins renni út. Öll fyrirtæki séu í aðstöðu til þess að viðhalda forskoti sínu á markaðnum með framþróun þeirrar vöru sem í fyrstu nýtur einkaleyfis. Það sé stefna Kerecis og að hún sé nú þegar komin til framkvæmdar.

Tekur Guðmundur dæmi af uppbyggingu Össurar hf. til að lýsa þessari nálgun. Bendir hann á að uppfinningamaðurinn Össur Kristinsson hafi breytt öllu fyrir fólk sem misst hafi fætur. Það hafi hann gert með sílíkonhulsu sem umbylti þeirri aðferð sem notast er við þegar gervifætur eru festir á fólk.

mbl.is

Gríðarleg vöruþróun

„Þegar ég koma að vinna þarna fyrst í sumarstarfi þegar ég var í efnafræði í háskólanum þá var sílíkonhulsan mjög þung. Hún var bara búin til úr sama efni og þegar maður er að laga eldhúsvaskinn hjá sér [...] núna er hulsan miklu léttari, búið að setja gúmmí- eða loftkúlur inn í hana. Það er plaststykki á endanum sem gerir það auðveldara að láta hana smella í koltrefjahulsuna. Hún er kóduð að innan með aloe-vera eða silfri til að koma í veg fyrir fótsveppi, það eru rifflur efst á henni til að auðvelda það að taka hana af sér. Svo er hægt að velja um 100 liti á henni. Allt er þetta einkaleyfaverndað.

Upprunalega einkaleyfið löngu útrunnið

Upprunalega einkaleyfi Össurar frá 1982 eða 1984 er löngu útrunnið. En öll þessi hulsa sem fólk vill kaupa í dag er öll einkaleyfavernduð í bak og fyrir og Össur er enn með markaðsráðandi stöðu. Og stór hluti af tekjum Össurar kemur enn frá þessari hulsu [...] Þeir hafa haldið áfram að afla klínískra gæða og skráð einkaleyfi.“

mbl.is

Bendi hann á að Kerecis sé á svipaðri vegferð og Össur. Fyrsta kynslóð sáraroðsins sem fyrirtækið byggir grundvöll sinn á sé á markaði og þá sé búið að kynna aðra kynslóð vörunnar og þriðja kynslóðin komi á markað innan þriggja til fjögurra ára.

Fimm milljarðar dollara verði 11 milljarðar

Sáraroðið sem Kerecis hefur kynnt á markað keppir við ýmsar aðrar lausnir þegar kemur að því að græða sár. Markaðurinn fyrir vöruna veltir um 5 milljörðum dollara á ári. Guðmundur segir að fyrirtækið sjái hins vegar tækifæri til að stækka markaðinn sem það keppi á. Það gerist ekki síst í gegnum svokallaðar ábendingar frá bandarískum yfirvöldum þar sem fyrirtækið sé hvatt til að beita tækni sinni og sérþekkingu á fleiri sértækar lausnir í heilbrigðisgeiranum. Það eigi m.a. við í meðhöndlun munnholssára, brunasára og sára sem verið sé að græða eftir skurðaðgerðir. Þá geti orðið þjónað við lagfæringar á liðböndum, krossböndum og aðstoðað við að halda brjóstum uppi í kjölfar uppbyggingar.

Segir Guðmundur að með þessari nálgun sé ætlunin að stækka markaðinn sem Kerecis keppir á í 11 milljarða dollara.

Sem stendur er Kerecis með 2% hlutdeild á fimm milljarða dollara markaðnum og á grundvelli þeirrar sóknar sem fyrirtækið er á, telja ráðgjafar þess að markaðsvirði þess geti numið allt að milljarði dollara á árinu 2023. 

Líkt og greint var frá í Dagmálum og Morgunblaðinu í liðinni viku stefnir Kerecis á markað í Bandaríkjunum eða Svíþjóð á næstu vikum.

Þættir