Ómar: „Ég bara sat áfram“

INNLENT  | 21. October | 15:10 
„Ég skil ekki í því hvers vegna er verið að beita þessu mikla valdi og stórri sveit lögreglumanna á meðan málið er ekki ennþá útkljáð fyrir dómstólum landsins,“ segir fréttamaðurinn Ómar Ragnarsson í samtali við mbl.is en Ómar var færður í fangaklefa vegna mótmæla við Gálgahraun.

„Vegagerðin er að láta gera þetta á þeim forsendum að við séum ekki lögaðilar að málinu en það er ennþá fyrir dómstólum og ekki búið að útkljá það. Ég skil ekki í því hvers vegna er verið að beita þessu mikla valdi og stórri sveit lögreglumanna á meðan málið er ekki ennþá útkljáð fyrir dómstólum landsins.“

Þetta segir Ómar Ragnarsson, fréttamaður, í samtali við mbl.is en hann var einn af þeim sem handtekinn var í morgun af lögreglu við Gálgahraun fyrir að reyna að koma í veg fyrir að framkvæmdir gætu hafist við nýjan Álftanesveg. Þegar blaðamaður heyrði í Ómari var hann staddur í fangaklefa.

„Ég gerði mér það til saka að sitja þarna. Lögreglan stóð þarna en lét mig alveg óáreittan þegar ég gekk inn á vinnusvæðið,“ segir hann. Hins vegar hafi verið komið í veg fyrir að ýmsir aðrir kæmust inn á svæðið. „Ég settist niður og þá kom fyrst maður með gjallarhorn og sagði að ég ætti að fara. Og ég bara sat áfram. Þetta er lögleysa og ég segi bara eins og í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga: Ég stend á réttinum en beygi mig fyrir valdinu.“

Þættir