Snerpa fær almennt fjarskiptaleyfi

Snerpa ehf. á Ísafirði hefur fengið úthlutað almennu fjarskiptaleyfi hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Í leyfinu felst heimild til að reka eigið fjarskiptanet fyrir bæði tal og gagnaflutninga og er Snerpa fyrsta fyrirtækið utan höfuðborgarsvæðisins sem hefur aflað sér slíks leyfis.

Í tilkynningu frá Snerpu er haft eftir Birni Davíðssyni starfsmanni félagsins að það hafi til þessa einungis starfað eftir almennri heimild í fjarskiptalögum hvað varðar netþjónustu okkar, en með breyttum áherslum í starfseminni sé nauðsynlegt að afla sérstaks rekstrarleyfis, þannig að fyrirtækið geti rekið eigið fjarskiptanet. Til þessa hefur Snerpa eingöngu leigt aðgang að fjarskiptaneti Landssímans en á síðasta ári hóf fyrirtækið undirbúning að lagningu eigin fjarskiptaleiða. Til að bjóða slíka þjónustu þarf að lúta sérstökum skilyrðum PFS, þar með talið að hafa sérstakt rekstrarleyfi til starfseminnar. Segir Björn að eftir að þetta leyfi sé fengið sé ekkert því til fyrirstöðu að Snerpa bjóði alfarið eigin lausnir í gagnaflutningsþjónustu. Þá veitir leyfið einnig heimild til að reka eigið símakerfi. Segir Björn að í náinni framtíð geti komið að því að Snerpa geti boðið Vestfirðingum alhliða fjarskiptalausnir. Sé m.a. horft til þess að 1. október næstkomandi eigi Snerpa að geta fengið beinan aðgang að heimtaugum í dreifikerfi Landssímans á sama grundvelli og Landssíminn sjálfur. „Þá gefa þessar breyttu aðstæður okkur kost á að bjóða svokallaða DSL-þjónustu, hliðstæða ADSL-þjónustu Landssímans og höfum við nú þegar fengið og sett upp nokkur sett af SDSL-búnaði til reynslu en SDSL er frábrugðið ADSL að því leyti að flutningsgetan er söm í báðar áttir og getur þessi búnaður flutt frá 128 kbps upp í 2 Mbps. Við reiknum með að kynna þessa þjónustu í haust en hún byggist á því að kröfur okkar um breytta gjaldtöku af langlínum hafi hlotið undirtektir, en það kemur í ljós um næstu mánaðamót þegar Landssíminn kynnir nýja gjaldskrá á langlínum," er haft eftir Birni í tilkynningunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert