Sony afturkallar 3,5 milljónir spennubreyta fyrir PS2

Nýja útgáfan af PS2 við hliðinni á þeirri eldri.
Nýja útgáfan af PS2 við hliðinni á þeirri eldri. mbl.is

Hátæknifyrirtækið Sony hefur afturkallað 3,5 milljónir spennubreyta fyrir þunnu gerðina af PlayStation 2 leikjatölvuna. Þetta á einungis við um einstakar gerðir sem framleiddar voru frá ágúst til desember á síðasta ári. Að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu er ástæðan fyrir innkölluninni sú, að spennubreytarnir geta ofhitnað og skemmst. Sony hefur látið eigendur leikjatölvanna fá nýja spennubreyta í staðinn.

Þetta á einungis við um þunnu útgáfuna af PS2 með númeraröðina SCPH70002, 70003 og 70004. Að sögn Sonys geta þeir, sem leita vilja upplýsinga um það hvort þeir séu með bilaða spennubreyta, farið á vefsíðu fyrirtækisins og kannað málið. Slóðin er www.ps2ac.com. Hægt er að fá nánari upplýsingar hérlendis í síma 591-5199.

Þrátt fyrir mikla sölu á leikjatölvunni þá hafa einungis 40 kvartanir borist vegna þeirra í Bandaríkjunum en þar seldust 960.000 tölvur þegar þær komu fyrst á markað á síðasta ári. Ríflega 60% þeirra leikjatölva sem eru með bilaða spennubreyta voru seldar í Evrópu. Fyrstu vikuna voru 50.000 eintök af leikjatölunni seld í álfunni einni saman.

Af öryggisástæðum þótti Sony best, að innkalla alla bilaða spennubreyta leikjatölvunnar í Evrópu, Mið-Asíu, Afríku og í Ástralíu.

Sony er síður en svo eina fyrirtækið sem orðið hefur fyrir skakkaföllum af völdum galla í raftækjum. Í ágúst á síðasta ári varð tölvuframleiðandinn Apple að innkalla 28.000 rafhlöður fyrir PowerBook fartölvur vegna ofhitnunar. Þá varð Microsoft að skipta út rafmagnssnúrum fyrir Xbox leikjatöluna vegna galla í þeim. Þetta átti við um þriðjung allra leikjatölva Xbox, sem settar höfðu verið á markað frá árinu 2001.

BBC

mbl.is