Myndir af „viðkvæmum stöðum“ á Indlandi gerðar óskýrar í Google Earth

Skjámynd Google Earth.
Skjámynd Google Earth.

Google hefur samþykkt að gera sumar gervihnattamyndir af Indlandi, sem hægt er að sjá í Google Earth-forritinu, óskýrar. Ríkisstjórn Indlands óskaði eftir því að Google myndi draga úr nákvæmni mynda af sumum svæðum landsins í öryggisskyni.

Ríkisstjórnin hefur gert lista yfir svæði sem hún telur vera viðkvæm, en talið er að listinn nái yfir herstöðvar og opinberar byggingar.

Nú þegar er búið að gera margar gervihnattamyndir af ýmsum svæðum í Google Earth óskýrar eða að þær hafa verið ritskoðaðar að beiðni annarra ríkisstjórna.

Samkomulagið um að sum svæði verði ritskoðuð í forritinu var niðurstaða fundar sem Google átti með vísinda- og tækniráðherrum Indlands.

Í frétt indverska dagblaðsins Times of India kemur fram að Indlandsstjórn hafi sagt að öfgahópar gætu nýtt sér nákvæma uppdrætti af byggingum og nákvæm kort. Stjórnvöld í Indlandi lýstu áhyggjum sínum fyrst árið 2005, skömmu eftir að Google hóf að bjóða upp á þessa þjónustu.

Aðrar ríkisstjórnir hafa beðið Google um að fjarlægja myndir eða gera þær óskýrar. Þetta á við staði eins og kjarnorkuver, opinberar byggingar og leyniþjónustuskrifstofur.

Þetta hefur leitt til þess að margir hafa farið að svipast eftir þessum stöðum sem búið er að gera óskýra í Google Earth.

mbl.is

Bloggað um fréttina