Rithöndin á undanhaldi

Danskur sérfræðingur spáir því, að rithöndin sé smátt og smátt að hverfa og þess verði ekki langt að bíða, að skriftarkennslu verði hætt í skólum.

Danska blaðið 24timer hefur eftir Johan Peter Paludan, sérfræðingi hjá dönsku framtíðarstofnuninni að einnig megi búast við að lyklaborð á tölvum heyri brátt sögunni til.

„Þá mun fólk tala við tölvur, sem breytir töluðum orðum í rituð. Þegar þetta gerist verða allir sammála um, að það sé algerlega óþarft að kenna skrift," segir Paludan við blaðið.

24timer hefur eftir lýðskólakennaranum Mette Teglers, sem situr í stjórn danska kennarafélagsins, að enn sé lögð áhersla á að kenna skrift í barnaskólum. Hins vegar notist eldri nemendur nær eingöngu við tölvur.


Þá segir Niels Egelund, prófessor við danska kennaraháskólann, að það verði stöðugt erfiðara að lesa skrift nemenda. Þessi þróun hafi haldist í hendur við tölvu- og SMS-væðinguna.

„Ég hef séð verkefni, sem nemendur hafa handskrifað og það er afar erfitt að skilja hvað þar stendur. Þetta var ekki vandamál fyrir 25 árum," segir Egelund.

mbl.is

Bloggað um fréttina