Engin tengsl við smástirnið

„Ég held að það sé alveg útilokað,“ segir Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, í samtali við mbl.is spurður hvort hann telji að loftsteinaregn í Rússlandi í nótt, þar sem um 500 manns slösuðust, tengist för smástirnisins 2012 DA14 sem nálgast jörðina á ógnarhraða og fer framhjá henni í dag.

„Miðað við það sem stjörnufræðingar hafa reiknað út hingað til þá er stefna þessa steins sem féll í Rússlandi alveg gjörólík þessa sem fer framhjá okkur í kvöld. Þannig að það er mjög ólíklegt að þarna séu einhver tengsl á milli. Það er þá einhver tilviljun,“ segir Sævar ennfremur.

Hann segir aðspurður að sem betur fer sé það ekki algengt að loftsteinar valdi slysum á fólki og tjóni eins og varð í Rússlandi. Það geti þó alltaf gerst. „Þessi steinn, ég kalla það upplýsta ágiskun, hefur sennilega verið um það bil á stærð við bíl. Ég gæti trúað því. Sú staðreynd að hann splundraðist í loftinu segir manni að hann hafi ekki verið það stór að hann hafi náð alla leið niður.“

Sævar segir að smástirni af þessari stærð fari framhjá jörðinni kannski vikulega en það sé sem betur fer mjög sjaldgæft að þeir falli í gegnum lofthjúpinn og lendi hér. „Svona steinn kemur inn í lofthjúpinn væntanlega á um það bil átta kílómetra hraða á sekúndu þannig að hann er á gífurlegum hraða. Þá myndast svakalega mikill kraftur og við þessar aðstæður splundrast hann, ekki síst þar sem hann er oft á tíðum laus í sér.“

AFP/NASA
Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.
Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.
mbl.is

Bloggað um fréttina