Koltvísýringur í sögulegu hámarki

Magn koltvísýrings í andrúmsloftinu hefur í fyrsta sinn í mannkynssögunni farið yfir 400 ppm (parts per million). Bandarískir vísindamenn hafa greint frá þessu en þeir segja að styrkur gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu hafi aldrei verið meiri.

Þetta eru söguleg tímamót að sögn vísindamanna. Þeir segja að það eigi að líta á þau sem ákall um að mannkynið eigi að hverfa frá þeirri braut sem það er á, sem hefur valdið miklum umhverfisspjöllum, og að draga úr gríðarlegri notkun jarðefnaeldsneytis.

Bob Ward, sem starfar á umhverfissviði hjá Grantham Research Institute og London School of Economics, segir að annað eins magn koltvísýrings hafi ekki mælst í heiminum í milljónir ára, eða löngu fyrir tíma mannkynsins.

„Við erum að búa til forsögulegt veðurfar og munu samfélög manna standa frammi fyrir gríðarlegri áhættu, jafnvel hörmungum,“ segir Ward.

„Aðeins með því að draga hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu getum við dregið úr magni koltvísýrings og komið í veg fyrir fullar afleiðingar þess að snúa loftlagsklukkunni við,“ bætti hann við.

Rannsóknargögn sýndu fram á að sólarhringsmeðaltal koltvísýrings yfir Kyrrhafi hafi verið 400,03 ppm í gær, en mælingin fór fram á Mauna Loa á Havaí. 

mbl.is