Ein mesta uppgötvun stjarnvísindanna

Stjörnuhimininn geymir marga leyndardóma.
Stjörnuhimininn geymir marga leyndardóma. AFP

Nýjar vísbendingar um þyngdarbylgjur frá óðaþensluskeiði Miklahvells eru einhver mesta uppgötvun stjarnvísindanna, fáist þær staðfestar, og færa okkur nær upphafinu en nokkru sinni fyrr. Þetta kemur fram á Stjörnufræðivefnum

Líkt og mbl.is greindi frá í dag hafa stjarnvísindamenn fundið fyrstu sönnunargögnin fyrir þyngdarbylgjum frá óðaþensluskeiði Miklahvells. Uppgötvunin, sem gerð var með útvarpssjónauka á Suðurskautslandinu, veitir hugsanlega upplýsingar um ástand alheimsins örfáum sekúndum eftir upphafið.

Að sögn Stjörnufræðivefsins opnar uppgötvunin einnig nýja leið til að rannsaka grunnkrafta náttúrunnar við gífurlega háa orku og kenningar um sameiningu þeirra í skammtaþyngdarfræði.

„Þetta er meiriháttar uppgötvun sem bendir til þess að leit manna að skammtaþyngdarfræði sé ekki tilgangslaus, að þyngdarsviðið sé líka skammtað. Þetta er stærri uppgötvun en fundur Higgs-eindarinnar,“ segir Einar H. Guðmundsson, prófessor í stjarneðlisfræði við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, í samtali við Stjörnufræðivefinn.

Þar kemur einnig fram að nú þurfi vísindamennirnir sem gerðu uppgötvunina að sannfæra vísindasamfélagið um að mælingar þeirra séu traustar. Líklega muni taka nokkur ár að sannreyna þær fyllilega.

Sjá ítarlega umfjöllun um uppgötvunina og þýðingu hennar á Stjörnufræðivefnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina