Myndavél með tunglryki seld á uppboði

Eina myndavélin sem skilaði sér aftur til baka úr tunglferðum Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, NASA, á árunum 1969-1972 var seld á uppboði í Vínarborg í gær.
Alls fengust 550 þúsund evrur fyrir gripinn sem miklu hærri fjárhæð en búist var við að fengist fyrir myndavélina. Myndavélin var metin á 150-200 þúsund evrur fyrir uppboðið.
Vélin er af Hasselblad-gerð og er ein fjórtán myndavéla sem voru sendar til tunglsins með Apollo 11-17. Ástæðan fyrir því að vélarnar voru skildar eftir var sú að geimfararnir tóku með sér grjót af tunglinu heim en hver myndavél var nokkur kíló að þyngd. 
Peter Coeln, eigandi gallerísins þar sem uppboðið fór fram, segir að það sé tunglryk á myndavélinni og það sé næsta víst að það séu ekki margar myndavélar með slíkt ryk á sér.

mbl.is