Jörðin verður annar staður

Losun manna á gróðurhúsalofttegundum veldur því að meðalhiti jarðar fer ...
Losun manna á gróðurhúsalofttegundum veldur því að meðalhiti jarðar fer hækkandi. Miðað við núverandi þróun gæti hlýnun numið 4-6°C á næstu áratugum og öldum. mbl.is/Ómar

Ekki verður hægt að forða áframhaldandi hlýnun jarðar og hún verður önnur pláneta á næstu áratugum en mannkynið hefur þekkt áður. Þetta segir Gavin Schmidt, yfirmaður loftslagsrannsókna NASA, sem telur markmið um að halda hlýnun við 2°C óraunhæft. Menn ætli sér ekki að greiða kostnaðinn við það.

Schmidt, sem er forstöðumaður Goddard-geimrannsóknastofnunar NASA (GISS) og sérfræðingur í loftslagslíkönum, var einn þeirra loftslagsfræðinga sem héldu erindi á málþinginu „Heit framtíð, kalt stríð“ sem fór fram í Háskóla Íslands í gær á vegum Earth 101-verkefnisins. Þar var fjallað um þær loftslagsbreytingar sem eru að verða og munu eiga sér staða á jörðinni vegna síaukinnar losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.

Frummælendurnir fjórir voru allir sammála um að ekki verði hægt að ná því markmiði sem þjóðir heims hafa sett sér um að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C miðað við fyrir iðnbyltingu. Einnig að forðast verði fyrir alla muni að hlýnun jarðar fari upp í 4°C. Slík hlýnun þýði að á næstu áratugum og öldum verði jörðin önnur pláneta en menn hafa áður þekkt.

Afleiðingarnar alvarlegar

Mbl.is ræddi við Schmidt á föstudag en þá hafði hópurinn meðal annars haldið stuttar kynningar fyrir þingmenn um loftslagsbreytingar.

–Trúir þú að okkur muni takast að halda hlýnuninni innan við þessar 2°C sem við ræðum um í sífellu?

„Nei. Ég held að við munum ekki halda okkur fyrir neðan 2°C. Ekki bara vegna aðgerðarleysis heldur líka vegna þess að það er mjög erfitt. Til þess að halda okkur fyrir neðan 2°C þyrftum við að soga koltvísýring úr lofthjúpnum í miklum mæli fyrir árið 2070. Að draga hann úr loftinu til viðbótar við að draga úr losuninni. Kannski verða einhverjar tækniframfarir sem munu gera það ódýrara en það er virkilega erfitt að sjá fyrir sér hvernig það á að gerast og það þarf að gerast á gríðarlegum skala. Í kolefnavinnslu eiga menn við kolefni í mjög samþjöppuðu formi. Olía og kol eru samþjappað kolefni. Koltvísýringur er alls ekki samþjappaður. Við þyrftum að grafa niður 20 sinnum meira rúmmál af kolefni en það sem við erum að grafa upp í formi kola og olíu. Það er virkilega erfitt að sjá hvernig það á að gerast“

–Það þýðir að við eigum „áhugaverða“ tíma framundan...

„Já, við eigum áhugaverða tíma framundan. Ég held að það sé óumflýjanlegt. Þú gætir sagt að við ætlum að breyta öllu á morgun. Við erum ekki að fara breyta öllu á morgun. Það er kostnaður fólginn í því sem við ætlum okkur ekki að borga. Hefðum við átt að hefjast handa fyrir tuttugu árum? Já, við hefðum átt að hefjast handa fyrir tuttugu árum. Við erum að taka þetta alvarlegar en ég held að við munum ekki taka þetta nógu alvarlega í ljósi tregðunnar í kerfinu til þess að halda okkur undir 2°C. Getum við haldið okkur undir 4°C? Kannski.“

–En þá erum við farin að tala um ansi alvarlegar afleiðingar?

„Já, við erum að tala um ansi alvarlegar afleiðingar. Jafnvel með 3°C [hlýnun] miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu er verið að setja upp hækkun á yfirborði sjávar til lengri tíma litið upp á um það bil sex metra. Ekki á þessari öld en kannski eftir 300 ár. Það er virkilega mikið. Þegar þú horfir til plíósentímabilsins [fyrir 2,6-5,3 milljónum ára] þegar aðeins var um 3°C hlýrra þá var yfirborð sjávar um tuttugu metrum hærra. Það var enginn hafís á norðurskautinu til að tala um. Það voru skógar nær alla leið upp að norðurheimskautsbaugi. Hitinn í hitabeltinu var margfalt hærri en í dag. Ef við erum í heimi sem er 4°C hlýrri þá verður lágmarkshitastigið hærra en það hefur nokkru sinni verið frá því mælingar hófust. Hvernig munu hlutir aðlagast því? Þeir eru ekki aðlagaðir að því. Hitabeltisskógar hafa ekki haft slíkt hitastig síðan þeir urðu hitabeltisskógar. Hvað á eftir að gerast? Það er afar erfitt að vita.“

Gavin Schmidt, forstöðumaður Goddard-geimrannsóknarstofnunar NASA.
Gavin Schmidt, forstöðumaður Goddard-geimrannsóknarstofnunar NASA. Eggert Jóhannesson

Eigum ekki eftir að forða okkur undan áframhaldandi hlýnun

Schmidt segir að í samræðum sínum við stjórnmálamenn og fólk almennt skynji hann vilja til þess að gera eitthvað í málunum. Oft sé fyrir hendi fáfræði um hvað eigi að gera en viljinn og vitundin um nauðsyn aðgerða sé til staðar.

„Fólk nær þessu. Vita þeir sem taka ákvarðanir um þetta? Já, þeir gera það. Spurningarnar sem við erum spurð eru mun betri en þær voru. Þær voru þannig hvort að loftslagsbreytingar væru raunverulegar. Nærri því enginn spyr mig að því lengur. Nú [eru þær um að] loftslagsbreytingar eru raunverulegar fyrir utan hópinn sem segir þær algert svindl en það er alger jaðarhópur. Hlutirnir eru að breytast og þeir eru að batna. Hvort þeir verði betri nógu hratt til að forðast það versta? Það versta gæti orðið nokkuð slæmt svo kannski náum við að forðast það. Við eigum hins vegar ekki eftir að forða okkur frá áframhaldandi hlýnun, við eigum ekki eftir að forða okkur frá áhrifunum og að fara yfir ákveðna þröskulda og það verður erfitt þegar við gerum það,“ segir hann.

Fyrsti hluti viðtals mbl.is við Gavin Schmidt

mbl.is

Bloggað um fréttina

* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...
Frá Kattholti
Munið að með því að gerast félagar í Kattavinafélagi Íslands styðið þið við star...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...
ÚTI HRINGSTIGAR
Vantar stiga af svölunum ofan í garðinn ? Stærð 120, 140 og 160 cm og eftir mál...