Stunda ólöglega upplýsingasöfnun

Angar Facebook teygja sig í alla króka og kima internetsins.
Angar Facebook teygja sig í alla króka og kima internetsins. AFP

Facebook fylgist með allri netnotkun einstaklinga sem heimsækja síðu á samfélagsmiðlinum, jafnvel þótt viðkomandi eigi sjálfur ekki Facebook-aðgang eða hafi hafnað því að láta fylgjast með sér. Með þessu brýtur fyrirtækið gegn lögum Evrópusambandsins.

Þetta kemur fram í skýrslu sérfræðinga við University of Leuven og Vrije Universiteit Brussels.

Rannsakendurnir segja að Facebook fylgist með netumferð í tölvum fólks án samþykkis viðkomandi, hvort sem sá er skráður inn á Facebook eða ekki, og jafnvel þótt hann sé ekki Facebook-notendi eða hafi hafnað því að vera fylgt eftir á netinu.

Fjöldi fyrirtækja, Facebook þeirra á meðal, fylgjast með nethegðun fólks í þeim tilgangi að ná til þess með auglýsingabirtingum sem eru sérsniðnar út frá netnotkun þess.

Samkvæmt Guardian snýr málið m.a. að íbótum (plugin) á borð við „Like“-hnappinn, sem nú er að finna á milljónum vefsíða. Þegar netnotandi heimsækir síðu á Facebook kemur samfélagsmiðillinn svokölluðu smygildi, eða „cookie“, fyrir á tölvu viðkomandi. Þegar hann síðan heimsækir vefsíðu þriðja aðila sem hýsir íbót á borð við Like-hnappinn, verður íbótin vör við smygildið og sendir það til baka til Facebook, jafnvel þótt netnotandinn noti ekki íbótina. (Þ.e. smelli t.d. ekki á Like-hnappinn)

Samkvæmt lögum Evrópusambandsins verður að leita samþykkis notanda áður en smygildum er komið fyrir á tölvu viðkomandi. Samkvæmt eftirlitsaðilanum Article 29, sem er ráðgefandi í málefnum er varða persónuvernd á netinu, verður að afla samþykkis áður en íbætur senda smygildi, bæði í þeim tilfellum þegar um er að ræða netnotendur sem eru ekki með aðgang að samfélagsvef og notendur sem ekki eru innskráðir.

Höfundar skýrslunnar segja Facebook klárlega brjóta gegn Evrópulöggjöfinni hvað þetta varðar; það sé ekki nóg að notendur tilkynni ekki að þeir kæri sig ekki um að vera fylgt eftir á netinu, heldur þurfi hreint og beint samþykki að liggja fyrir.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is