Rauður dreki til Mars

Dragon-birgðaflutningageimfar SpaceX leggur að Alþjóðlegu geimstöðinni.
Dragon-birgðaflutningageimfar SpaceX leggur að Alþjóðlegu geimstöðinni. AFP

Einkarekna geimferðafyrirtækið SpaceX er sagt hafa í hyggju að senda geimfar til Mars, jafnvel strax á þarnæsta ári. Fyrsti tilraunaleiðangurinn ætti að sýna fram á getuna til að flytja mikinn farm til reikistjörnunnar. Dragon-geimfarið er þó ekki fært um að flytja menn alla leið til Mars.

Athafnamaðurinn Elon Musk, eigandi SpaceX, hefur ekki farið í grafgötur með áhuga sinn á að koma upp nýlendu á rauðu reikistjörnunni. Í færslum á Twitter í gær sagði Musk að Dragon 2-geimfarið væri hannað til að geta lent hvar sem er í sólkerfinu. Rauði drekinn Mars-leiðangurinn verði fyrsta tilraunaflugið.

„En ég myndi ekki mæla með því að flytja geimfara út fyrir svæði jarðarinnar og tunglsins. Væri ekki mjög skemmtilegt í lengri ferðir. Rúmmálið innan í er um það bil á stærð við jeppa,“ skrifað Musk.

Heimildamaður Space.com segir að fyrsti leiðangurinn gæti flutt vistir og híbýli fyrir Marskönnuði. Fyrirtækið er einnig sagt hafa í hyggju að svipta hulunni af hönnun á nýlendu á nágrannareikistjörnunni síðar á þessu ári.

Skammur tími til stefnu

SpaceX er að þróa öflugri útgáfu af Falcon-eldflaug sinni sem það segir að eigi að geta sent menn og farm djúpt út í geiminn, jafnvel alla leiðina til Mars. Hún hefur verið nefnd Falcon Heavy en tilraunir með geimskot með henni eru enn ekki hafnar.

Eins er það enn að þróa Dragon 2-geimfarið. Það á að geta flutt menn út í geim og hefur SpaceX samning við bandarísku geimvísindastofnunina NASA um að flytja geimfara hennar til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar með því.

Dragon 2 er stærri er birgðaflutningahylkið Dragon sem þegar er í notkun til að flytja vistir og búnað til geimstöðvarinnar. Það er jafnframt búið þrýstihreyflum sem eiga að gera því kleift að lenda mjúklega.

Næsti gluggi til að senda geimfar með hagkvæmum hætti til Mars opnast í maí árið 2018 og því er skammur tími til stefnu fyrir SpaceX að gera allt tilbúið í tæka tíð. Takist það ekki er næsti mögulegi gluggi fyrir geimskot ekki fyrr en rúmum tveimur árum síðar.

Elon Musk vill koma upp nýlendu manna á reikistjörnunni Mars.
Elon Musk vill koma upp nýlendu manna á reikistjörnunni Mars. NASA/JPL-Caltech/MSSS

Tímaritið Wired segir að Rauða drekaleiðangurinn sé samstarfsverkefni SpaceX og bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Stofnunin muni ljá fyrirtækinu sérfræðiþekkingu sína og aðgang að fjarskiptakerfi sínu, Deep Space Network, sem notað er til að hafa samband við geimför á fjarlægum slóðum í sólkerfinu.

„Þetta samstarfsverkefni gæti séð NASA fyrir verðmætum upplýsingum um aðflug, lækkun og lendingu fyrir leiðangur okkar til Mars og á sama tíma stutt bandarískan iðnað,“ hefur Wired eftir Tabatha Thompson, talsmanni NASA.

NASA hefur almenn áform um að senda menn til Mars á fjórða áratug þessarar aldar.

Frétt SpaceX

Umfjöllun Wired

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert