Merki hlýnunar sterkari en áður

Íshellan á Grænlandi heldur áfram að minnka. Hlýnun á norðurskautinu …
Íshellan á Grænlandi heldur áfram að minnka. Hlýnun á norðurskautinu er tvöfalt meiri en annars staðar á jörðinni. AFP

Meðalhitinn yfir landi á norðurskautinu síðastliðið ár er sá mesti frá því að mælingar hófust. Yfirmaður norðurskautsrannsókna bandarísku haf- og loftslagsstofnunarinnar (NOAA) segir merki viðvarandi hlýnunar sterkari og greinilegri á þessu ári en nokkru sinni áður frá því að mælingar hófust.

Í Norðurskautsskýrslu 2016 sem 61 vísindamaður alls staðar að úr heiminum tók þátt í að semja og NOAA gefur út kemur fram að norðurskautið haldi áfram að hlýna meira en tvöfalt hraðar en aðrir heimshlutar. Búist er við því að árið í ár verði það hlýjasta frá því að mælingar hófust.

Frétt Mbl.is: Hitabylgja á norðurskautinu

Skýrslan nær yfir tímabilið frá október í fyrra til september á þessu ári. Meðalhitinn á norðurskautinu á þessu tímabili var sá mesti frá því að mælingar hófust.

„Skýrslan í ár sýnir sterkara og greinilegra merki um viðvarandi hlýnun en nokkuð annað ár sem gögn okkar ná til. Þessi hlýnunaráhrif á norðurskautinu hafa haft keðjuverkandi áhrif á allt umhverfið,“ sagði Jeremy Mathis, yfirmaður norðurskautsrannsókna NOAA, þegar hann kynnti skýrsluna á ársþingi Bandaríska jarðeðlisfræðisambandsins í San Francisco í dag.

3,5°C hlýrra en við þarsíðustu aldamót

Fyrir utan þá hnattrænu hlýnun sem á sér stað vegna bruna manna á jarðefnaeldsneyti og meðfylgjandi losun gróðurhúsalofttegunda hafa suðlægir vindar sem bera hlýtt loft norður á bóginn og El niño-veðurfyrirbrigðið með hlýrri sjó stuðlað að óvenjulegum hlýindum á norðurskautinu.

Þannig var meðalhiti yfir landi á norðurskautinu 3,5°C hærri síðastliðið ár en árið 1900. Í ágúst, þegar hafið er sem hlýjast, voru Barents- og Tjúktahaf og hafið vestan og austan við Grænland 5°C hlýrra en meðaltal áranna 1982 til 2010 samkvæmt skýrslunni.

Frétt Mbl.is: Hafísbreiður jarðar í lágmarki

Hlýindin leiddu til þess að lágmarksútbreiðsla hafíssins á norðurskautinu í haust var sú minnsta frá því að gervihnattaathuganir hófust árið 1979. Útbreiðslan var 28% minni í október en meðaltal áranna 1981-2010.

Ekki er nóg með það heldur er hafísinn nú þynnri en oftast áður og myndast við vetrarfrost aðeins eins árs frekar en margra ára eins og áður var. Þannig voru um 45% hafíssins svokallaður fjölær ís árið 1985. Núna eru aðeins um 22% hafíssins eldri en eins árs.

Þá voru met slegin í snjóþekjunni á norðurskautinu. Lágmarkssnjóþekjan í maí fór þannig í fyrsta skipti undir fjórar milljónir ferkílómetra frá því að gervihnattaathuganir hófust árið 1967.

Bráðnun Grænlandsjökuls heldur einnig áfram líkt og hún hefur gert ár eftir ár frá því að athuganir úr geimnum hófust árið 2002. Aðeins einu sinni hefur bráðnunin hafist fyrr að vori þar í 37 ára sögu athugana.

Örvar þörungagróður í hafinu

Afleiðingar hlýnunarinnar fyrir menn og annað líf eru verulegar. Með hopi hafíssins hefur meira sólarljós borist í gegnum efri lög hafsins á norðlægum slóðum og hefur það örvað þörungagróður. Súrnun hafsins veldur einnig álagi á skeldýr í sjónum sem hefur áhrif á fólk sem reiðir sig á fiskveiðar.

Þá benda vísindamennirnir á að sníkjudýr sem áður herjuðu á sjófugla séu nú farin að leggjast á snjáldurmýs á norðurskautinu. Það bendi til þess að sumar dýrategundir séu farnar að færa sig norðar en áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert