Bættar almenningssamgöngur bæta loftgæði

AFP

Hjólaborgir eins og Kaupmannahöfn, Amsterdam og Ósló eru með öruggustu og hreinustu samgöngukerfin af 13 höfuðborgum Evrópu, samkvæmt nýrri rannsókn sem unnin er af Greenpeace. Róm er verst samkvæmt könnuninni sem kynnt var í fjölmiðlum í gær.

„Öruggar götur og hreint loft fara saman,“ segir Barbara Stoll, sem stýrir baráttu Greenpeace fyrir bættum loftgæðum.

Hún segir að rannsóknin sýni að um leið og innviðir almenningssamgöngukerfi borga eru bættir batni loftgæðin fyrir íbúa og göturnar verði öruggari.

AFP

Rannsóknin nær til 13 höfuðborga í Evrópu en Reykjavík er ekki ein þeirra. Róm, þar sem 65% allra ferða innan borgarmarkanna eru á einkabílum og öðrum vélknúnum ökutækjum í einkaeigu, er neðst á listanum yfir þær borgir sem eru vistvænar. 

Nefnt er að ódýr bílastæði og lélegar almenningssamgöngur valdi því að einkabíllinn verður fyrir valinu hjá flestum. Því er loftmengunin í borginni skelfileg. Eins eru göturnar hættulegar fyrir gangandi vegfarendur sem og hjólandi enda yfirfullar af einkabílum.

En Róm er ekki eini syndaselurinn því Búdapest, París og Moskva eru einnig neðarlega á listanum þar sem loftgæði eru slæm í borgunum. Aðeins nokkrir dagar eru liðnir frá því framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti að hún myndi draga sex ríki fyrir dóm fyrir að hafa ekki tekið á loftmengun af fullum þunga. Ríkin sem um ræðir eru meðal annars: Þýskaland, Frakkland, Bretland og Ítalía.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert