Hvattir til að nota fötu í öðru herbergi

Alþjóðaklósettdagurinn er í dag.
Alþjóðaklósettdagurinn er í dag. mbl.is

Alþjóðaklósettdagurinn er í dag og er í Bretlandi vakin athygli á því að tugir þúsunda starfsmanna þar í landi hafi ekki aðgang að þolanlegri klósettaðstöðu.

Í frétt BBC um málið segir að starfsfólk í einu bresku bankaútibúi hafi verið hvatt til að nota fötu sem komið hafði verið fyrir í einu herbergi bankans. Í öðru tilfelli var rútubílstjóra neitað um salernispásu í fimm klukkustundir og á byggingasvæði einu voru kvennaklósettin notuð sem geymsla.

Það var Unite, stærsta verkalýðsfélag Bretlands, sem vakti athygli á þessu en verkalýðsfélagið er að reyna að hvetja til vitundar um nauðsyn ásættanlegrar salernisaðstöðu fyrir starfsfólk.

Telur Unite að tugir þúsunda starfsfólks hafi ekki aðgang að viðunandi klósettaðstöðu eða að á það séu settar ónauðsynlegar hömlur við notkun salernis. Eru konur sérstaklega sagðar þurfa að sætta sig við niðurlægjandi klósettaðstöðu.

Mál áðurnefnds banka eru nefnd þar sérstaklega, en eingöngu karlmenn voru ráðnir til starfa í þessu útibúi og voru þeir hvattir til að nota fötu í öðru herbergi til að draga úr þeim tíma sem þeir væru fjarri vinnu.

Varaformaður Unite, Gail Cartmail, sagði málið vera „hneykslanlegt“ og að aðstæðurnar hefðu augljóslega verið „verulega niðurlægjandi“ fyrir starfsfólkið.

„Vinnuveitendur hafa alls enga ástæðu fyrir að tryggja ekki ásættanlega salernisaðstöðu og ef þeir gera það ekki þá ættu heilbrigðisyfirvöld að sækja þá til saka,“ sagði  Cartmail.

Klósettið ekki ruslafata

Hér á landi hafa Veitur nýtt daginn til að vekja athygli á þeim vanda sem blautklútar valda í frárennsliskerfinu og á Vísindavefnum er birt svar við hugleiðingum um það hvað verði um það sem við sturtum niður í klósettið.

Vekur greinarhöfundur athygli á að meginhlutverk fráveitukerfis sé að koma í veg fyrir að fólk komist í snertingu við sjúkdómsvaldandi örverur í saur. Á þeim tíma sem fyrsta fráveitan var reist í Reykjavík hafi margir dáið úr vatnsbornum faröldrum, eins og taugaveiki. 

Ekki sé þó „nóg að eiga gott fráveitukerfi, það þarf líka að kunna að umgangast það. Klósettið er ekki ruslafata. Aðskotahlutir eins og blautþurrkur, dömubindi, matarolía og feiti geta myndað stíflur í lögnum, dælistöðvum og skólphreinsistöðvum, sem geta leitt til þess að óhreinsað skólp flæðir upp úr kerfinu með tilheyrandi óþægindum. Talið er að Íslendingar hendi fjórfalt meira rusli í klósettið en Svíar. Meginhlutverk fráveitu er að flytja óhreint vatn, ekki plast, blautþurrkur og afgangsfeiti og -olíu,“ segir í greininni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert