Farsímar verða verðlaunapeningar

Munu verðlaunapeningarnir á Ólympíuleikunum í Tókýó á næsta ári líta …
Munu verðlaunapeningarnir á Ólympíuleikunum í Tókýó á næsta ári líta svona út? Skjáskot/BBC

Allir verðlaunapeningarnir sem veittir verða á Ólympíuleikunum og Ólympíuleikum fatlaðra í Tókýó 2020 verða endurunnir úr rafrænum úrgangi.

Að sögn skipuleggjenda var ákvörðunin tekin 2017 og söfnun hefur því staðið yfir í tæp tvö ár, þar á meðal á fartölvum og snjallsímum, sem nýtast við gerð verðlaunapeninganna.

Markmiðið er að safna 30,3 kílóum af gulli en heldur meira af silfri og bronsi, eða 4,1 tonni af silfri og 2,7 tonnum af bronsi. Tekist hefur að safna nægu bronsi og hefur 90% af áætluðu magni af gulli verið safnað og 85% af silfri. Alls hafa tæp 48 þúsund tonn af rafrænum úrgangi safnast, þar á meðal fimm milljónir notaðra farsíma sem almenningur hefur gefið til söfnunarinnar.

„Mér finnst það skemmtileg tilhugsun að gamli síminn minn geti orðið verðlaunapeningur á Ólympíuleikunum 2020,“ segir einn íbúi í Tókýó sem veitti söfnuninni lið.

Ólympíuleikarnir fara fram í Tókýó í Japan á næsta ári …
Ólympíuleikarnir fara fram í Tókýó í Japan á næsta ári og er undirbúningur í fullum gangi. AFP

Margir sjá eflaust fyrir sér gamla snjallsíma eða jafnvel gömlu Nokia-símana hangandi um háls verðlaunahafanna en það kemur í ljós síðar á þessu ári þegar hönnun verðlaunapeninganna verður kynnt. Breska ríkisútvarpið hefur þó nokkrar hugmyndir líkt og sjá má í myndskeiði í frétt á vef BBC.

Þetta er í fyrsta sinn sem til stendur að vinna verðlaunapeninga á leikunum alfarið úr rafrænum úrgangi en um 30% af silfur- og bronspeningunum á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu 2016 voru úr endurunnum efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert