Netskattur þrátt fyrir hótanir Bandaríkja

Skattinum er beint að alþjóðlegum stórfyrirtækjum með tekjur í Frakklandi, …
Skattinum er beint að alþjóðlegum stórfyrirtækjum með tekjur í Frakklandi, sem flest greiða skatta utan landsteinanna. AFP

Franska þingið hefur samþykkt lög um innleiðingu sérstaks skatts á stafræna starfsemi, þrátt fyrir hótanir bandarískra stjórnvalda sem segja skattinum beint að bandarískum tæknirisum.

Skatturinn mun nema 3% af allri sölu á þjónustu í Frakklandi. Frönsk stjórnvöld halda því fram að alþjóðleg fyrirtæki, svo sem Facebook og Google, sem hafa höfuðstöðvar í öðrum ríkjum og greiða oft skatta á lágskattasvæðum, hafi miklar tekjur upp úr ríkinu sem ekki sé sanngjarnt að komi að litlu eða engu leyti til baka til franska ríkisins.

Bandaríkjastjórn hefur boðað að brugðist verði við áformunum og gæti farið svo að þau leggi hefndartolla á móti. Þeir tollar myndu þó að öllum líkindum leggjast á Evrópusambandið allt, enda er það sameiginlegt tollasvæði og aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Mögulegt væri þó að beita tollunum sérstaklega á varning sem er fyrirferðarmikill í frönskum útflutningi.

Með lögunum mun skatturinn leggjast á öll fyrirtæki á stafrænum markaði með árstekjur upp á að lágmarki 750 milljónir evra (106 milljarða króna), þar af 25 milljónir evra (3,5 milljarða króna) af viðskiptum í Frakklandi. Þau gilda afturvirkt frá fyrri hluta þessa árs og er áætlað að skatturinn skili 400 milljónum evra (57 milljörðum króna) á þessu ári.

Greiða þriðjung í skatt á við önnur fyrirtæki

Ástæða þess að sjónum yfirvalda er beint að tæknifyrirtækjum er að sögn sú að þau komist upp með að hafa miklar tekjur upp úr ríkjum þar sem þau hafa í raun litla sem enga starfsemi og greiði því ekki skatta þar. 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins áætlar að hefðbundin fyrirtæki greiði að meðaltali 23% skatt á hagnað af starfsemi sinni innan sambandsins, en hlutfallið sé á bilinu 8-9% hjá netfyrirtækjum. 

Frakkar hafa lengi kallað eftir samevrópskum skatti á starfsemina, en ekki hefur náðst samstaða innan ESB um slíkt vegna andstöðu nokkurra ríkja, Svíþjóðar, Finnlands, Írlands og Tékklands. Samhljóða samþykki þarf í ráðherraráði Evrópusambandsins fyrir álagningu skatta, rétt eins og í utanríkismálum, en breytingar á því hafa lengi staðið til. Er það meðal annars vilji Ursulu von der Leyen, sem tilnefnd hefur verið til embættis forseta framkvæmdastjórnar ESB.

Því hafi Frakkar brugðið á það ráð, fyrstir Evrópusambandsríkja, að innleiða skattinn. Fleiri ríkisstjórnir hafa þó viðrað svipaðar hugmyndir, svo sem í Bretlandi, Spáni og Austurríki.

mbl.is