Hvernig verður þessi nýi iPhone?

Svörin birtast von bráðar við þessum spurningum.
Svörin birtast von bráðar við þessum spurningum. AFP

Það styttist í að nýjasta gerðin af iPhone-snjallsímanum frá Apple líti dagsins ljós. Talið er að snjallsíminn verði sýndur formlega 10. september og fari í almenna sölu 20. september. Þetta eru þó getgátur einar saman. Tæknisérfræðingar telja að hann verði númer 11 í röðinni í Apple-snjallsímafjölskyldunni. 

Þrjár gerðir eru af símanum og sá ódýrasti er iPhone 11R. Þrátt fyrir að ekki liggi miklar upplýsingar fyrir um nýjustu gerðina hefur þó fengist staðfest að myndavélin í símanum er með þremur linsum og litirnir eru nokkrir. Hann er einnig sagður þynnri og léttari en iPhone XS sem kom á markað í fyrra.  

Þeir sem bundu vonir við að fá 5G í snjallsímann verða líklega fyrir vonbrigðum því ekki er líklegt að slíkur gripur komi í sölu fyrr en á næsta ári eða árið 2020.  

Sem fyrr ríkir mikil leynd yfir þessari nýjustu afurð frá Apple. Veglegt boð verður haldið 10. september sem útvaldir hafa fengið formlegt boð í. Hafi þeir ekki boðskortið meðferðis í höfuðstöðvar Apple verður þeim ekki hleypt inn. Telegraph greinir frá.     

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert