Aldrei áður jafn heitt í Rússlandi

Miðborg Moskvu í dag. Enginn snjór ólíkt því sem venjan …
Miðborg Moskvu í dag. Enginn snjór ólíkt því sem venjan er. AFP

Aldrei áður hefur verið jafn heitt ár í Rússlandi og það sem er nú að líða, segir veðurstofustjóri Gidromedtsentr, Roman Vilfand.

Meðalhitinn í Moskvu fyrir árið í heild er 7,6-7,7 gráður og er þetta 0,3 gráðum hærri hiti en áður hefur mælst í borginni. Veðurmet hafa verið skráð í Moskvu frá árinu 1879 og Rússlandi sem heild frá árinu 1891. 

Þessi mynd er tekin á annan í jólum í Moskvu. …
Þessi mynd er tekin á annan í jólum í Moskvu. Venjulega er allt þakið snjó í borginni á þessum árstíma en undanfarnar vikur hefur hitinn ítrekað farið yfir 7 gráður en í meðalári er frostið sex gráður í desember í Moskvu. AFP

Desember er venjulega ískaldur í Moskvu en það er annað upp á teningnum í ár þar sem ekki hefur verið jafn hlýtt í desember í borginni í meira en öld. Hitametin hafa víða fallið í heiminum á árinu og fyrr í mánuðinum greindu Sameinuðu þjóðirnar frá því að ljóst væri að árið 2019 yrði eitt af þremur hlýjustu í sögu mælinga. 

Nokkur snjókorn féllu í Moskvu í dag og er það fyrsti snjórinn sem fellur þar í mánuðinum. Skíðasvæði borgarinnar eru lokuð vegna snjóleysis og tré eru farin að bruma þremur mánuðum hið minnsta of snemma. 

Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, hefur ekki viljað tengja saman hlýnun jarðar og mannanna verk. Í árlegu ávarpi við lok árs sagði hann að það vissi enginn hvað ylli loftslagsbreytingum en afleiðingar þeirra gætu valdið hörmungum í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert