Vélmenni í stað nemenda við útskrift

Á þennan máta gátu nemendur fylgst með útskriftinni.
Á þennan máta gátu nemendur fylgst með útskriftinni. Reuters

Í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar í Japan hefur nú verið gripið til þess ráðs í háskóla þar í landi að vélmenni taki við prófskírteinum í stað nemenda við útskrift. Viðskiptaháskólinn í höfuðborg landsins, Tókyó, brá á þetta ráð þegar ljóst var að ekki var hægt að halda útskriftir með hefðbundnu sniði í ár. 

Með þessum hætti gátu nemendur verið „viðstaddir“ útskriftina, en líkt og sjá má á myndinni með fréttinni var spjaldtölva fest við vélmennið, sem jafnframt var klætt í viðeigandi klæðnað. Þannig gátu nemendur fengið að upplifa útskriftina í gegnum vélmennin.

Athöfnin fór þannig fram að vélmennin röðuðu sér upp líkt og um hefðbundna útskrift væri að ræða. Í kjölfarið tóku þau hvert á fætur öðru á móti útskriftarskírteininu á meðan nemendurnir fylgdust með í gegnum tölvuskjá að heiman. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert