Bylting handan við hornið

Smitrakningarappið gerir núna ekki annað en að rekja ferðir þess …
Smitrakningarappið gerir núna ekki annað en að rekja ferðir þess sem er með það, án þess að halda utan um hverja hann hittir. Það er að fara að breytast. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska C-19-smitrakningarappið verður tekið á næsta stig í maí eða júní, ef allt fer að óskum. Byltingin mun felast í því að appið geti útvegað upplýsingar ekki aðeins um þínar ferðir ef á daginn kemur að þú ert með COVID-19, heldur einnig um það hverja þú varst í það miklu návígi við að tilefni er til að þeir fari í sóttkví.

Ingi Steinar Ingason, teymisstjóri yfir rafrænum heilbrigðislausnum hjá embætti landlæknis, …
Ingi Steinar Ingason, teymisstjóri yfir rafrænum heilbrigðislausnum hjá embætti landlæknis, segir að um leið og stýrikerfi Google og Android verði uppfærð verði einfalt fyrir forritara íslenska appsins að taka það á næsta stig. mbl.is/RAX

Að sögn Inga Steinars Ingasonar, teymisstjóra hjá embætti Landlæknis sem hefur veg og vanda af appinu, mun þetta skipta verulegu máli fyrir smitrakninguna til lengri tíma, sérstaklega eftir að samkomutakmörkunum hefur verið aflétt. Sömuleiðis mun þetta hugsanlega leika lykilhlutverk þegar ferðalög hefjast um Evrópu á nýjan leik. Uppfærslna er nú beðið frá Apple og Google sem munu gera þessar breytingar mögulegar, en þeirra þarf við, þar sem ekki hefur tekist að fá fram þessa virkni án þess að stýrkikerfi geri ráð fyrir henni.

Eins og stendur gegnir íslenska appið aðeins því hlutverki að vera sýktum innan handar við að rekja eigin ferðir eftir að smit hefur greinst, svo að þeir megi síðan rifja upp hverja þeir hittu á hverjum stað. Fleiri en 132.000 hafa sótt appið, sem er mjög hátt hlutfall, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að hvorki yngstu né elstu aldurshópar eru líklegir til að sækja það yfirleitt.

Punktunum fjölgar í kortinu

Skiljanlega hafa margir áhyggjur af öryggi gagnanna sem þeir láta í té með því að fá sér appið en Ingi Steinar útskýrir að það sé í alvöru engar áhyggjur af því að hafa. Þó að þú hafir haft appið í gangi vikum saman hefur enginn aðgang að neinum upplýsingum um þig nema þeim að rakning sé í gangi fyrir þitt símanúmer. Það er ekki fyrr en þú ert greind(ur) með smit sem þú færð símtal, þar sem þér er boðið að virkja gögnin þín til þess að hjálpa þér að rifja upp síðustu daga.

Ef þú leyfir fær smitrakningarteymið upp kort af ferðum þínum þar sem sjá má hvar þú staldraðir við í kringum þann tíma sem þú fórst að sýna einkenni og dagana áður. Á þessum kortum eru aðeins upplýsingar um þínar eigin ferðir, þannig að til þess að vita hverja þú hittir þarftu að muna það sjálfur. Með breytingunum sem nú eru í farvatninu verður, í gegnum bluetooth-tækni, hægt að fá upplýsingar um alla þá sem einnig voru með appið í símanum þegar þeir komust í slíkt návígi við smitaðan að þeir þurfa að fara í sóttkví.

Að sögn Inga er þess ekki langt að bíða að þessi bylting geti orðið. „Forritarar okkar eru strax farnir að skoða drögin að forrituninni á bak við það sem Apple og Google eru að gera og þegar það verður fáanlegt ætti það ekki að taka okkur meira en viku að uppfæra okkar app með þessari viðbót,“ segir hann. Líklegast er að uppfærslan frá stórfyrirtækjunum tveimur komi snemma í maí.

Tökum sem dæmi skemmtistað

Af hverju skiptir þessi breyting svona miklu máli? „Vegna þess að þegar samkomutakmörkunum hefur að miklu leyti verið aflétt færist lífið í eðlilegra horf og fólk verður mun meira á ferðinni og í kringum alls konar fólk, verður strax margfalt erfiðara að muna hverja maður hitti hvar á hvaða tíma, ef í ljós kemur að þú ert smitaður,“ segir Ingi.

Þar kemur nýja tæknin inn. Með henni verður hægt að greina við hvaða einstaklinga hinn smitaði var í návígi, hversu lengi og hvenær. Það er síðan hægt að senda tilkynningar á þá sem þannig hafi augljóslega orðið útsettir fyrir smiti.

Tæknin, sem byggist á bluetooth, er að sögn Inga mjög nákvæm. „Tökum sem dæmi skemmtistað. Ef 500 eru inni á staðnum á sama tíma og einn reynist smitaður af veirunni, þá þyrftirðu með þessari tækni ekki að senda alla á staðnum í sóttkví heldur kannski aðeins 50 manns sem sést að hinn smitaði hafi átt samskipti við í einhvern tíma eða verið mjög nálægt,“ segir Ingi. Enn eigi eftir að safna gögnum og reynslu til að finna hversu náin eða löng samskiptin þurfa að hafa verið svo gripið sé til ráðstafana.

Ef smitrakningu yrði hætt yrði líklega sprenging í smitum

Smitrakning á Íslandi vegna kórónuveirufaraldursins hefur verið einstaklega vel heppnuð og niðurstaðan er að 54% af þeim sem hafa reynst veikir hafa verið stödd í sóttkví þegar smitið greindist. Sökum fámennis hefur þetta gengið betur og það er hringt í hvern einasta einstakling sem greinist með smit og rakið hverja hann kann að hafa smitað.

Ef þú smitast af COVID-19, færðu símtal frá smitrakningarteymi almannavarna …
Ef þú smitast af COVID-19, færðu símtal frá smitrakningarteymi almannavarna og þér er hjálpað að rifja upp hvern þú hittir síðustu daga. Að sjá ferilinn þinn á korti hjálpar í upprifjuninni. Ljósmynd/Lögreglan

Ingi bendir á að smitrakningin sé langtímaverkefni, enda mjög líklegt að ef henni yrði hætt yrði sprenging í smitum, þar sem smitberar æddu þá í auknum mæli grunlausir um alla koppagrundu og bæru út veiruna.

Það sem myndi greiða enn frekar fyrir smitrakningunni væri að fleiri fengju sér appið í símann sem gætu og Ingi ítrekar enn og aftur að út frá öryggissjónarmiðum hafi Íslendingar farið „persónuverndarvænustu“ leiðina. Allt það sem gildir um öryggismálin núna mun síðan einnig gilda í uppfærða appinu. Rakningarteymið mun fá upp kennimerki tækja sem voru í návígi við hinn smitaða, og getur þá óskað eftir símanúmerinu tengdu við það kennimerki.

Gögnin um ferðir manna eru annars ekki til nema í tvær vikur og aldrei aðgengileg nema með seinna samþykki eftir smit. Það er ólíkt því sem var til dæmis gert í Noregi, þar sem öll gögnin voru vistuð í rauntíma í stórt microsoftský, með mögulegri áhættu sem því fylgir, sem Ingi segir mjög óæskilega hugmynd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert