TikTok og WeChat bönnuð eftir helgi

Donald Trump Bandaríkjaforseti vill að TikTok komist í bandaríska eigu. …
Donald Trump Bandaríkjaforseti vill að TikTok komist í bandaríska eigu. Að öðrum kosti verður þjónusta þess í Bandaríkjunum bönnuð. AFP

Viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna hefur kynnt nýjar reglur sem munu banna kínversku samfélagsmiðlana WeChat og TikTok í Bandaríkjunum. Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur sagt fyrirtækin ógna þjóðaröryggi Bandaríkjanna og varað við því að fyrirtækin gætu deilt persónuupplýsingum og gögnum notenda með kínverskum stjórnvöldum.

WeChat er hefðbundið samskiptaforrit sem hefur svipaða stöðu í Kína og Facebook Messenger hér á landi. Það nýtur einkum vinsælda í Bandaríkjunum meðal fólks með tengingu við Kína. Samkvæmt reglunum verður öllum bandarískum fyrirtækjum, frá miðnætti á sunnudagskvöld, bannað að eiga í viðskiptum við WeChat og tryggja gagnaflutning milli síma notenda og netþjóna fyrirtækisins. Því verður forritið með öllu ónothæft í Bandaríkjunum.

Í tilfelli TikTok munu slíkar reglur ekki taka gildi fyrr en 12. nóvember. Fram að þeim tíma munu notendur enn notað forritið á nær sama hátt og áður en geta sótt sér uppfærslur.

Trump Bandaríkjaforseti hefur verið opinn fyrir þeim kosti að bandarískt fyrirtæki kaupi samfélagsmiðilinn sem nýtur mikilla vinsælda meðal yngra fólks þar sem hér á landi.

Tæknirisinn Microsoft hefur átt í viðræðum við kínverska fyrirtækið Byte Dance, sem á TikTok, um yfirtöku en þær sigldu í strand fyrr í mánuðinum. Nú binda bandarískir TikTok-unnendur vonir við að viðræður milli bandaríska tæknifyrirtækisins Oracle og Byte Dance beri árangur. Fyrrnefnda félagið er þekktast fyrir útgáfu forritunarmálsins Java.

NY Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert