Hlustar þú á gervigreind?

Róbotinn Sophie ræðir við gesti á gervigreindarráðstefnu á Indlandi fyrr …
Róbotinn Sophie ræðir við gesti á gervigreindarráðstefnu á Indlandi fyrr á árinu. Sophie er hönnuð af tæknifyrirtækinu Hanson Robotics í Hong Kong Ljósmynd/AFP

Fyrsta verkefni ofurgreindarinnar var að afla þróunarteyminu tekna. Eins mikilla og hægt var að afla á sem skemmstum tíma. Fyrstu milljarðarnir, í dollurum talið, urðu til í efnisveitu sem byggði á flóknu neti gervi-framleiðenda sem sköpuðu tölvugerðar bíómyndir og sjónvarpsþætti, ekki ósvipað því sem hefur malað gull fyrir Disney samstæðuna. Með því að stúdera allar kvikmyndir og allt það sjónvarpsefni sem skipt hefur máli í gegnum tíðina ásamt lestri og greiningu á því sem hefur verið skrifað um efnið náði ofurgreindin fullkomnum tökum á listinni á einungis nokkrum dögum. Í hvikulum bransa þar sem framleiðsla er bæði mannfrek og dýr áttu hefðbundnar framleiðsluaðferðir mannfólksins ekki roð í skilvirkni ofurgreindarinnar sem þróaði nú eigin hugbúnað og vélbúnað. Stærsta vandamálið var að fela slóð tölvuframleiðslunnar með flóknu neti framleiðslufyrirtækja um allan heim. Vissulega voru þau mönnuð fólki sem hélt þó að það léki hlutverk í gangvirki þessa ört vaxandi efnahagsrisa.   

Svona hefst dæmisaga um ofurgreindina Prómóþeus í inngangi bókarinnar Life 3.0 eftir sænsk-bandaríska eðlisfræðinginn Max Tegmark sem gegnir stöðu við MIT. Í bókinni veltir hann fyrir sér hvaða áhrif gervigreind komi til með að hafa á mannkyn og þróun lífs á jörðinni. Hvað gerist þegar gervigreind öðlast sjálfstæða færni til að þróa sjálfa sig og vélbúnaðinn sem hún byggir á? Ein af þessum stóru spurningum sem fluggáfað og einkar vel upplýst fólk er gjarnan með gjörólík svör við. Enda hefur enginn hugmynd um það. Bókin er á köflum stórfurðulegt torf en á köflum mjög áhugaverð. Sérstaklega greip þessi hugmynd um streymisveituna mig. Bókin er gefin út árið 2017 og þó hlutirnir gerist hratt í þessum geira væri varla hægt að kalla hana gamla. 

Framtíðarmúsík eða ekki?

Árið 2016, um það leyti sem bókin hefur verið skrifuð, byrjuðu blaðamenn að rýna í nokkra „listamenn” sem voru að gera það gott á mörgum spilunarlistum tónlistarveitunnar Spotify sem á undanförnum áratug hefur náð hálfgerðri einokunarstöðu þegar kemur að því að streyma tónum í eyru heimsbyggðarinnar. Þar er sænska athafnaskáldið Daniel Ek við völd en í ljós kom að fjöldi listamanna á Spotify eru tilbúnir. Oddur Klemenzson og Sigríður, sem maður myndi ætla að væru jafn íslensk og haglél í september, eru þar á meðal. Svo er þó ekki eins og fjallað hefur verið um. Þegar rýnt er í upplýsingar um lagið „Foreign Fields” með Sigríði kemur í ljós að þar er framleiðsluteymið Quiz & Larossi að baki, höfundur er Robin Bennich. Quiz & Larossi sem heita  Andreas Romdhane og Josef Svedlund eru áberandi í umfjöllun Music Buisness Worldwide um málið. Blaðamönnum MBW taldist til að tvíeykið hefði samið tónlistina fyrir um 8 listamenn sem eru áberandi á spilunarlistum eins og Peaceful Piano, Piano In The Bacground, Deep Focus o.s.fr.v. Listum þar sem tónlistinni er ætlað að vera í bakgrunni, hálfgerð lyftutónlist sem á að vera til staðar en ekki trufla. 

Sigríður er ekki öll þar sem hún er séð. Fjögur …
Sigríður er ekki öll þar sem hún er séð. Fjögur lög hafa verið gefin út undir hennar nafni og hafa þau safnað um 70 milljón spilunum og um 320 þúsund manns hlusta á tónlistina mánaðarlega. Gróft álitið ættu streymistölurnar að geta aflað um ríflega þrjátíu milljónum króna. Skjáskot.

Þetta eitt og sér er auðvitað ekkert athugavert út af fyrir sig. Höfundarverk hafa alla tíð verið gefin út undir fölskum forsendum. Staðreyndin er þó sú að umræddir spilunarlistar eru afar vinsælir og starfsmenn Spotify velja sjálfir tónlistina inn á þá. Að ná lagi inn á Peaceful Piano listann mætti líkja við að vinna í happdrætti, tekjurnar af spilun bara inn á þeim lista eru umtalsverðar. Smellirnir „Landmannalaugar” og „Seljalandsfoss” eftir Odd okkar, hafa fengið um tólf milljón spilanir á veitunni. Sumir „listamennirnir” eru með tugi milljóna spilana, þegar allt er lagt saman er ljóst að um háar fjárhæðir er að ræða, líklega taldar í hundruðum milljóna.      

Daniel Ek, stofnandi Spotify, við kynningu á samstarfi fyrirtækisins og …
Daniel Ek, stofnandi Spotify, við kynningu á samstarfi fyrirtækisins og Samsung í Brooklyn fyrr á árinu. Þrátt fyrir að flestir hlustendur séu sáttir við ódýran aðgang að megninu af tónlistararfi jarðarbúa eru þó skuggahliðar á fyrirkomulaginu. Ljósmynd/AFP

Félagarnir Quiz & Larossi eru þó smáir í sniðum í samanburði við sænska framleiðslufyrirtækið Epdemic Sound sem hefur herjað á þennan markað. Fyrirtækið kaupir öll hugverkaréttindi laga af tónlistarfólkinu og kemur þeim svo á framfæri á Spotify. Í því tilviki hefur vakið mikla athygli og úlfúð að Epidemic sé að hluta til í sama eignarhaldi og Spotify í gegnum fyrirtækið Creandum. Með því að koma tónlist frá Epidemic fyrir á spilunarlistunum gæti Spotify þannig sparað sér umtalsverðar upphæðir og setið beggja vegna borðsins ef svo má segja. Svikamylla.

Oddur er ekki að flækja málin, lögin bera nöfn þekktra …
Oddur er ekki að flækja málin, lögin bera nöfn þekktra áfangastaða ferðamanna. Litlar upplýsingar er að finna um hver semur tónlistina. Skjáskot

Reglulega spretta upp umræður á meðal tónlistarfólks hér á landi um fyrirkomulagið. Margir tónlistarmenn hafa lagt mikið á sig til að framleiða tónlist sem það sér fyrir sér að geti átt heima á listunum. Vonbrigðin eru umtalsverð þegar svo reynist útilokað að koma tónlistinni þar fyrir á meðan gervilistamenn eru þar að græða á tá og fingri, tja í það minnsta að ná upp í kostnað!  Tortryggnin er líka talsverð. Einn tónlistarmaður sem ég hafði samband við þegar ég var að vinna greinina var alveg til í að fara yfir málin en vildi alls ekki láta nafn síns getið þar sem hann stefnir á útgáfu fljótlega og vildi ekki styggja báknið.  

Hér má sjá annan tónlistarmann, Mikeal Lind sem raunar er sænskættaður til að halda þemanu, hann var fús til að koma fram undir nafni og sýna lesendum mbl.is galdurinn (eða ekki) á bak við gott (eða ekki) friðsælt píanólag sem færi létt með að trufla engan. Bara vera til staðar og raka inn streymum og sænskum krónum í rólegheitunum.

En hvernig lítur dæmið út ef við setjum dæmið í samhengi við dæmisögu Tegmans um streymisveiturnar og gervigreindina? Í bílskúr í Skerjafirði er tónskáldið Kjartan Ólafsson búinn að koma sér vel fyrir og leggja drög að innreið gervigreindar í tónsmíðar og tónsköpun með hönnun á forritinu Calmus. Afraksturinn er væntanlegur á markað um áramótin.

Í myndskeiðinu hér fyrir ofan má sjá forritið semja tónlist sem ætti líklega ekki heima á neinum spilunarlista sem boðar djúpa íhugun eða óskerta athygli. Það er þó einungis spurning um skilyrðinguna sem forritinu er veitt og augljóst er að forrit af svipuðum toga ættu auðvelt með að búa til tónlist sem gæti svindlað sér inn í algórythma hjá stórri streymisveitu og þannig sparað eigendum hennar svimandi háar fjárhæðir í höfundaréttargjöldum.

Tengsl tónfræði og stærðfræði eru auðvitað mikil og því er verið að kanna getu gervigreindar í tónlist víða um heim. Í tilefni af 250 ára fæðingarafmæli Ludwigs van Beethovens, sem verður þann 17. desember næstkomandi, er nú unnið að því að láta gervigreind ljúka við tíundu sinfóníu meistarans. Einungis eru til örfáar og samhengislausar skissur sem hann vann í áður en hann lést og verkefnið er því verðugt. 

Veröld ný og góð

Í sögunni um Prómóþeus var fólkið að baki gervigreindinni, Omega-hópurinn, sem betur fer býsna vel innrætt. Þegar skemmtanaiðnaðurinn var sigraður var næsta skref að byggja upp fjölda tæknifyrirtækja um allan heim sem komu með nýjar tæknilausnir (hönnuðum af Prómóþeusi) á markað sem breyttu lifnaðarháttum mannfólks til hins betra. Næst var að leggja undir sig fjölmiðlun. Það reyndist frekar auðvelt þar sem fjármögnunin byggði á sterkum grunni. Fréttastöðvar spruttu upp á öllum mörkuðum þar sem áður óséðum upphæðum var eytt í að skapa skynsamlega umræðu þar sem ábyrg og öfgalaus umfjöllun var í fyrirrúmi án nokkurrar kröfu um að skapa tekjur. 

Áhugaverðum spurningum er velt upp í bókinni Life 3.0.
Áhugaverðum spurningum er velt upp í bókinni Life 3.0.

Þannig skapaðist mikið traust almennings á öllu sem Omega-veldið kom nálægt. Fréttir og umfjöllun náði að minnka tortryggni á milli ólíkra hópa og þjóða. Allt var reiknað út af Prómóþeusi um hvernig hægt væri að gera samfélagið skilvirkara og réttlátara. Fjallað var með raunsönnum hætti um hvernig vopnuð átök gögnuðust fáum og ógnuðu saklausu fólki. Að lokum kom að yfirtöku á hinum pólitíska vettvangi þar sem mannúðleg markmið réðu för. Í stað hernaðarútgjalda var fjármunum frekar beint í þarfari farveg. Þið sjáið hvert þetta er að fara, valdahlutföllin skekktust og Omega-hópurinn náði völdum á jörðinni í krafti ofurgreindar Prómóþeusar sem reiknaði út hvernig hægt væri að hámarka hamingju allra sem hana byggja. Tryggja friðsælt líf á jörðinni og næstu heimkynnum mannkyns inn í eilífðina.

Ég er nú ekki að ýja að því að Ek og félagar hafi svona háleit markmið, en... er það mögulegt að við séum byrjuð að hlusta á tónlist sem er búin til af gervigreind? Og ef svo er skiptir það einhverju máli?

mbl.is