Sýking veitir svipaða vörn og bólusetning

Ísraelsk kona fær bólusetningu við Covid-19.
Ísraelsk kona fær bólusetningu við Covid-19. AFP

Fólk sem jafnar sig eftir að hafa smitast af kórónuveirunni býr til svipaða vörn gegn veirunni og það fólk sem er bólusett með bóluefni við Covid-19, í það minnsta hvað fyrstu fimm mánuðina eftir sýkingu varðar. 

Guardian greinir frá.

Rannsókn bresku lýðheilsustofnunarinnar sem rúmlega 20.000 heilbrigðisstarfsmenn tóku þátt í leiddi þetta í ljós. Í niðurstöðum hennar kemur fram að þeir sem sýkst hafa af veirunni séu varðir fyrir annarri sýkingu í 83% tilvika í að minnsta kosti 20 vikur. 

Niðurstöðurnar benda til þess að þó ólíklegt sé að fólk smitist fljótlega eftir fyrstu sýkingu sé mögulegt að þeir sem áður hafa smitast smitist aftur og smiti aðra. 

„Í heildina tel ég að þetta séu góðar fréttir,“ sagði Susan Hopkins yfirlæknir bresku lýðheilsustofnunarinnar um rannsóknina. „Þetta gefur fólki þá vitneskju að fyrri sýking muni vernda það fyrir annarri sýkingu en á sama tíma veitir fyrri sýking ekki algjöra vernd og því þarf fólk enn að vara sig.“

mbl.is