Fresta umsókn um markaðsleyfi

AFP

Bandaríska líftæknifyrirtækið  Novavax hefur frestað því að sækja um markaðsleyfi fyrir bóluefni sem er í þróun hjá fyrirtækinu. Þetta er töluvert áfall fyrir fátækari ríki heims en miklar vonir eru bundnar við bóluefni Novavax í baráttunni við Covid-19 hjá þróunarríkjunum.

Novavax vonast nú til þess að geta sótt um markaðsleyfi fyrir bóluefnið á þriðja ársfjórðungi bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.

Þegar fyrirtækið sendi út fréttatilkynningu um málið í gær lækkaði verð hlutabréfa félagsins um 12% á markaði.

Novavax-bóluefnið er það bóluefni sem Covax-bólusetningarsamstarfið reiðir sig á. Bóluefnið NVX-CoV2373 sýndi 100% vörn við alvarlegum veikindum af völdum Covid-19 í klínískum rannsóknum, fasa 3, í Bretlandi. Bóluefnið sýndi fram á 89,7% vörn við Covid-19 almennt séð.

Bóluefnið inniheldur erfðaupplýsingar um gaddapróteinið sem er að finna á yfirborði SARS-CoV-2-veirunnar sem veldur Covid-19. Eftir að bóluefnið hefur verið gefið lesa frumur líkamans erfðaupplýsingarnar og framleiða gaddaprótein. Ónæmiskerfið lítur á þau sem aðskotahlut og tekur til varna með því að beina gegn þeim mótefnum og T-frumum.

Nýtt bóluefni vekur vonir

Novavax greindi einnig frá jákvæðum niðurstöðum rannsókna á því að blanda bóluefnum við flensu og Covid saman en þær rannsóknir eru skemmra á veg komnar. Stefnt er að því að halda þeim rannsóknum áfram. Miðað við fyrstu niðurstöður virðist bóluefnið framleiða mikla vörn við báðum sjúkdómunum. Enn sem komið er hefur blandan ekki verið reynd á mönnum heldur aðeins dýrum. Þetta nýja bóluefni er unnið úr NanoFlu og NVX-CoV2373.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert