Forðist efni til að draga úr hættu á ófrjósemi

Vísindamenn telja að fjöldi sæðisfruma hjá karlmönnum muni nálgast núll …
Vísindamenn telja að fjöldi sæðisfruma hjá karlmönnum muni nálgast núll um 2045 haldi þróunin áfram. Getty Images

Ein af ástæðum aukinnar ófrjósemi síðastliðna áratugi er snerting fólks við innkirtlatruflandi efni. Þau finnast víða í okkar daglega umhverfi og eru meðal annars notuð í plast, þvottaefni, málningu, snyrtivörur, lækningartæki, raftæki og textíl.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.

Þar sem bent er á að rannsóknir sýni að meðalfjöldi sæðisfruma hjá karlmönnum hafi lækkað um 50-60% frá árinu 1973 til 2011 í Evrópu, Norður-Ameríku og Ástralíu. Telja vísindamenn að fjöldi sæðisfruma hjá karlmönnum muni nálgast núll um 2045 haldi þróunin áfram.

Fram kemur að þekktustu innkirtlatruflandi efnin séu perflúoruð alkýlsúlfónöt (PFAS), bisfenól efnasambönd, þalöt, eldtefjandi efni sem innihalda halógena, díoxín, fjölklóruð bífenýl (PCB) og paraben. 

Notkun á mörgum þessara efna er nú þegar bönnuð eða háð takmörkunum að einhverju leyti í lögum og reglugerðum sem gilda hér á landi.

Bent er á í tilkynningunni að ein leið til þess að forðast innkirtlatruflandi efni sé að velja vörur merktar Svansmerkinu eða Evrópublómin og þá helst án ilmefna.

Einnig er mælt með því að að lofta hýbýli vel út, t.d. tvisvar á dag og þurrka af eða ryksuga vikulega til að draga úr styrk hættulegra efna í innilofti.

mbl.is