Háðu harða baráttu í forritun

Unnar Freyr Erlendsson mótsstjóri og Bjarki Ágúst Guðmundsson yfirdómari keppninnar.
Unnar Freyr Erlendsson mótsstjóri og Bjarki Ágúst Guðmundsson yfirdómari keppninnar. Ljósmynd/Aðsend

Alþjóðlega háskólakeppnin NWERC í forritun fór fram um síðustu helgi. Keppnin átti að fara fram í Háskólanum í Reykjavík í ár en vegna heimsfaraldursins Covid-19 fór hún fram á netinu. Þetta kemur fram í tilkynningu.

NWERC er svæðiskeppni Norður-Evrópu fyrir ICPC heimskeppnina þar sem nemendur frá öllum heimshlutum keppa sín á milli í forritun.

500 þátttakendur

„Keppninni var stýrt frá HR og dómarar voru staddir þar og pössuðu upp á að öllum reglum væri fylgt. Þeir sáu líka um að svara spurningum keppenda og kynna lausnirnar á dæmum að keppninni lokinni.

Alls mættust 134 lið frá háskólum í Belgíu, Lúxemborg, Bretlandi, Írlandi, Íslandi, Eistlandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku, Þýskalandi, Hollandi og Litháen. Liðin háðu harða baráttu í að leysa stærðfræði- og reikniritaþrautir með forritun og höfðu 5 klukkustundir til að leysa eins mörg dæmi og þau gátu. Þrír keppendur voru í hverju liði en með þjálfurum og sjálfboðaliðum voru þetta í heildina um 500 þátttakendur," er haft eftir Unnari Frey Erlendssyni mótsstjóra í tilkynningu.

Alls 134 lið tóku þátt í keppninni. Hér má sjá …
Alls 134 lið tóku þátt í keppninni. Hér má sjá hluta keppenda reyna að leysa stærðfræði- og reikniritaþrautir með forritun. Ljósmynd/Aðsend

Cambridge-háskóli bar sigur úr býtum

Cambridge-háskóli sigraði í keppninni, Oxford-háskóli var í öðru sæti og Technical University Munchen í þriðja sæti. Lið HR lenti í 46. sæti af 134 liðum. Efstu liðin komast áfram í ICPC heimskeppnina sem haldin verður í Bangladesh í nóvember 2022.

„Þarna voru margir mjög öflugir forritarar að keppa og þeir eiga mikla möguleika á að komast í góð störf í framtíðinni m.a. eftir að hafa tekið þátt í þessari keppni,“ er haft eftir Unnari en hann tók þátt í keppninni árið 2016, 2017 og 2018.

„Þessi keppni hjálpaði mér mjög mikið með atvinnutækifæri. Ég fór að starfa hjá Google í kjölfarið,“ segir Unnar en hann stundaði nám í tölvunarstærðfræði við HR og lauk meistaranámi í tölvunarfræði þaðan 2019.

NWERC háskólakeppnin í forritun hefur verið haldin síðan 1989 og HR hefur tekið þátt í henni síðan 2012. Besti árangur HR í keppninni var 5. sætið 2016.

mbl.is